Menningarstyrkir í Kópavogi voru afhentir við hátíðlega athöfn í Salnum 6. apríl. Alls fimmtán aðilar, einstaklingar, hópar, hátíðir og samtök fá styrk úr lista- og menningarsjóði í ár.
Bræðurnir Finnjón og Sveinn Mósessynir og frumbýlingsár þeirra í Kópavogi er umfjöllunarefni ritsins Landnemar í Kópavogi eftir Leif Reynisson sagnfræðing. Ritið er fjórða í ritröð Sögufélags Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs.
Hekla Hlíðkvist Hauksdóttir og Viktoría Rós Bjarnþórsdóttir úr Skólahljómsveit Kópavogs voru valdar til þátttöku í lokahátíð Nótunnar sem fer fram þann 10. apríl næstkomandi í Hörpu. Þær voru hlutskarpastar í sínum flokki í undankeppni tónlistarskóla á suðvesturhorni landsins, sem var haldin 13. mars í Salnum í Kópavogi.
Menningarhúsin í Kópavogi; Bókasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og Gerðarsafn verða opin á sumardaginn fyrsta og bjóða fjölbreytta menningardagskrá fyrir börn á öllum aldri kl. 11:00 – 17:00.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti einróma að kaupa Digranesveg eitt fyrir stjórnsýslu Kópavogs á fundi sínum 22. mars. Kaupverð eru 585 milljónir króna. Bæjarstjórn samþykkti við sama tækifæri að innrétta Hressingarhælið við Kópavogstún fyrir fundi bæjarstjórnar og móttökur.
Alls sóttu tæplega 45.000 gestir viðburði á síðustu Vetrarhátíð sem fór fram dagana 4. – 7. febrúar og eru það þriðjungi fleiri gestir en á síðasta ári og ein besta þátttaka á hátíðinni frá upphafi en þetta er í 14. skipti sem hún var haldin. Hátíðin fór fram í öllum sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og stóð í fjóra daga. Í menningarhúsunum í Kópavogi og sundlaugum Kópavogs var boðið upp á fjölbreytta dagskrá á Safna- og sundlauganótt.
Vörumerkið Reykjavík Loves verður notað til að markaðssetja höfuðborgarsvæðið í heild til erlendra ferðamanna samkvæmt samstarfssamningi sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þau Ármann Kr. Ólafsson í Kópavogi, Haraldur L. Haraldsson í Hafnarfirði, Gunnar Einarsson í Garðabæ, Haraldur Sverrisson í Mosfellsbæ og Ásgerður Halldórsdóttir á Seltjarnarnesi skrifuðu undir í dag.
Fjölmargir nýir áfangar litu dagsins ljós í menningarstarfi á vegum Kópavogsbæjar 2015. Má nefna nýja tónlistarhátíð CYCLE, Music and Art festival, sem var tilnefnt til tveggja menningarverðlauna á árinu.