- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Vörumerkið Reykjavík Loves verður notað til að markaðssetja höfuðborgarsvæðið í heild til erlendra ferðamanna samkvæmt samstarfssamningi sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þau Ármann Kr. Ólafsson í Kópavogi, Haraldur L. Haraldsson í Hafnarfirði, Gunnar Einarsson í Garðabæ, Haraldur Sverrisson í Mosfellsbæ og Ásgerður Halldórsdóttir á Seltjarnarnesi skrifuðu undir í dag.
Samningurinn felur í sér samstarf sveitarfélaganna á vettvangi markaðsmála, viðburða og upplýsingamála í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Markmið samstarfsins er að vinna að því að ferðamenn dreifist meira um höfuðborgarsvæðið, verji þar meiri tíma og nýti betur afþreyingu og þjónustu á svæðinu í heild. Í samningnum kemur m.a. fram að vörumerkið Reykjavík sé þekkt og með samvinnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undir sameiginlegu vörumerki Reykjavík Loves megi efla svæðið enn frekar sem eftirsóknarverðan áfangastað fyrir erlenda ferðamenn.
Höfuðborgarstofa ber ábyrgð á framkvæmd þeirra verkefna sem tilgreind eru í samstarfinu. Allir samstarfsaðilar eiga fulltrúa í samstarfsnefnd verkefnisins en hlutverk samstarfsnefndarinnar er að afgreiða fjárhagsáætlun vegna samstarfsins, meta framgang þess og standa vörð um að unnið sé í samræmi við markmið samningsins. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins sem haldið er utan um og stýrt af Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).
Verkefnið byggir á eldra samstarfi sveitarfélaganna frá árinu 2005 um markaðsstarf, viðburði og upplýsingamiðlun til erlendra ferðamanna. Það samstarf var eflt til muna árið 2013 á vettvangi SSH þegar ákveðið var að kynna höfuðborgarsvæðið í heild undir vörumerkinu Reykjavík. Auðkenni fyrir höfuðborgarsvæðið sem áfangastað fyrir erlenda ferðamenn var síðan kynnt í október 2014 undir merkjum Reykjavík Loves.
Aukið samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í markaðssetningu gagnvart erlendum ferðamönnum hefur nú þegar skilað sér í gerð sameiginlegs kynningarefnis s.s. þemabæklinga undir merkjum Reykjavík Loves þar sem sundlaugar, söfn og hjólastígar á höfuðborgarsvæðinu eru kynnt sérstaklega fyrir erlendum ferðamönnum. Samningurinn sem undirritaður var á Höfuðborgarstofu í dag gildir til 31. desember 2018.