Upphæð frístundastyrkja 5 ára

  • Fimm ára börn fá 85.000 króna frístundastyrk.
  • Miðað er við að þau geti iðkað að minnsta kosti eina íþrótt eða aðra tómstund foreldrum að kostnaðarlausu.

Upphæð frístundastyrkja 6-18 ára

  • Börn á aldrinum 6 til 18 ára fá 59.000 krónur.
  • Heimilt er að ráðstafa frístundastyrknum hvenær sem er á árinu óháð fjölda greina.
  • Ráðstafa þarf styrk á tímabilinu 1.janúar til 31.desember.

Líkamsræktarkort ungmenna 16-18 ára

  • Heimilt er að veita frístundastyrk til ungmenna 16-18 ára.
  • Miðað er við fæðingarár. Þriggja til tólf mánaða kort að líkamsræktarstöðvum eru styrkhæf.
  • Líkamsræktarstöðvar þurfa að uppfylla skilyrði um fræðslu til iðkendan og fagmennsku í sinni starfsemi.

Ráðstöfun á frístundastyrk

  • Foreldrar og forsjáraðilar sem eiga sama lögheimili og barn geta ráðstafað frístundastyrk þess.
  • Foreldri/forsjáraðili sem ekki á sama lögheimili og barn getur ráðstafað frístundastyrknum ef íþróttafélagið/tómstundafélagið stofnar viðkomandi sem í skráningarkerfi viðkomandi. Sama á við um aðra nákomna ættingja svo sem ömmur og afar.
  • Til þess að skrá nýjan forsjáraðila þarf skriflegt leyfi frá núverandi forráðamanni.
  • Vakin er athygli á því að þetta gildir ekki gagnvart Reykjavík.

Tilgangur með frístundastyrk

  • Öll börn á aldrinum 5 til 18 ára í Kópavogi geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.

Styrkhæf frístund

  • Til að starfsemi geti talist styrkhæf þarf námskeiðið/starfsemin að standa yfir í að minnsta kosti 10 vikur samfellt.
  • Starfsemin þarf að vera byggð á uppeldislegum gildum og forvörnum og fara fram undir stjórn/leiðsögn menntaðs fagaðila á sviði íþrótta og/eða tómstunda.
  • Ekki er heimilt að flytja styrkinn á milli ára.
  • Ekki er hægt að nýta styrkinn á sumarnámskeið.
Reglur um frístundastykri

1. gr. Markmið og tilgangur
Kópavogsbær veitir foreldrum/forráðamönnum barna á aldrinum 5-18 ára frístundastyrki vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, hér eftir nefnt „frístundastarf“.

Meginmarkmið frístundastyrksins er að öll börn, 5-18 ára, í Kópavogi, geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Meginskilyrði styrkjanna er að starfsemin sé á forsendum uppeldislegra gilda og forvarna.

Vísað er til 1. greinar æskulýðslaga nr. 70 frá 2007.
Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og
áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarleg gildi þess sem miðar að því að
auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda.“

Vísað er til 2. greinar íþróttalaga nr. 64 frá 1998.
Meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála skal vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði.
Samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu skal taka mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnastarf“.

2. gr. Almennt um frístundastyrk og úthlutunarreglur

Frístundastyrknum er úthlutað til barna í formi styrks frá Kópavogsbæ sem foreldri/ forráðamenn ráðstafa til þeirra aðila er standa fyrir skipulögðu frístundastarfi og falla undir styrkhæfisreglur sveitarfélagsins.

Með frístundastyrknum má greiða að fullu, eða hluta, fyrir íþrótta-, lista- og/eða aðra tómstundastarfsemi á vegum félaga og fyrirtækja.

Foreldrar/forráðamenn barna geta ráðstafað frístundastyrknum hvenær sem er á árinu og óháð fjölda greina/námskeiða.

Styrkupphæð er í samræmi við gildandi samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs hverju sinni. Styrkur getur aldrei orðið hærri en æfinga-/námskeiðsgjald viðkomandi frístundatilboðs.

Ekki er heimilt að nýta frístundastyrkinn til að greiða sérstakan viðbótarkostnað svo sem vegna tækja og búnaðar, fatnaðar og ferða.

Ráðstöfun er endanleg. Ekki er hægt að endurgreiða eða bakfæra styrk þegar foreldri/forráðamaður hefur ráðstafað styrk til félags á grundvelli frístundastyrksins.

3. gr. Skilyrði fyrir veitingu styrks
Að barnið eigi lögheimili í Kópavogi og sé á aldrinum 5-18 ára miðað við fæðingarár. Iðkendur eiga rétt á styrk frá og með því ári sem 5 ára aldri er náð, til og með því ári sem 18 ára aldri er náð.

Börn sem flytja í Kópavog fá fullan styrk á því ári sem flutt er í bæjarfélagið.

4. gr. Skipulagt frístundastarf og styrkhæfi aðila
Velferð og hagur barna skal hafður að leiðarljósi í frístundastarfi og í samræmi við ákvæði laga og reglugerða er varða börn. Skipulagt frístundastarf þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að teljast styrkhæft:
    a. Að um sé að ræða skipulagt frístundastarf undir stjórn/leiðsögn menntaðs fagaðila á sviði íþrótta- og tómstunda. Börn undir 18 ára aldri skulu ekki starfa við                       þjálfun, kennslu- eða leiðbeinendastörf í barnastarfi ein síns liðs. Fagaðili getur þó haft einstaklinga undir 18 ára aldri sér til aðstoðar.
    b. Skipulagt frístundastarf þarf að ná yfir 10 vikur samfellt hið minnsta. Ekki eru veittir styrkir vegna hefðbundinna sumarnámskeiða eða annarra námskeiða sem                   eru styttri en 10 vikum samfellt.
    c. Starfsemi sem telst styrkhæf er starfsemi á vegum íþrótta- og tómstundafélaga, nám við tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla og skólahljómsveita. Skipulögð          námskeið s.s. innan líkamsræktarstöðva, sjálfsstyrkingar og önnur þau námskeið sem uppfylla skilyrði reglna þessara falla undir styrkinn.
    d. Starfsemi sem ekki telst styrkhæf er starfsemi trúfélaga og annarra lífsskoðunarfélaga, stjórnmálasamtaka og viðvera eftir skóla.
    e. Aðili sem sinnir skipulögðu frístundastarfi skal gera samning um frístundastyrk við Kópavogsbæ að uppfylltum reglum um styrkhæfi.
    f.  Aðild að frístundastyrknum má ekki verða til þess að gjaldskrár/æfingagjöld aðila hækki óeðlilega milli ára.
    g. Starfsmenn menntasviðs meta hvort einstakir aðilar uppfylli skilyrði reglna. Leiki vafi á styrkhæfi bera starfsmenn tillögur sínar undir íþróttaráð og frístunda- og               forvarnanefnd menntasviðs.
   h. Heimilt er að veita styrk til ungmenna, 16-18 ára miðað við fæðingaár, til kaupa á 3ja til 12 mánaða kortum að líkamsræktarstöðvum sem uppfylla skilyrði um                    fræðslu til iðkenda og fagmennsku í sinni starfssemi.

5. gr. Samstarfssamningur
Aðilar sem uppfylla ofangreindar reglur um frístundastyrki geta sótt samstarfssamning á heimasíðu Kópavogsbæjar. Starfsmenn menntasviðs meta hverja umsókn og veita aðilum sem uppfylla skilyrði, aðgang að frístundastyrkjakerfinu. Í framhaldi er gerður samningur þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:
    a) Nafn, kennitala, símanúmer, netfang og heimasíða aðila. Að auki nafn,kennitala, símanúmer og netfang tengiliðs vegna umsóknar og/eða ábyrgðaraðila
    b) Tegund starfsemi og starfssvæði
    c) Tímatöflur og námskeiðsframboð
    d) Gjaldskrá
    e) Upplýsingar um aðstöðu/húsnæði

6. gr. Uppgjör og skil aðila á gögnum

Menntasvið ferð með styrkuppgjör af hálfu Kópavogsbæjar. Styrkuppgjör til aðila er í fyrstu viku hvers mánaðar og fer uppgjör fram með rafrænum hætti.

Aðilum að Frístundastyrknum ber að skrá alla þátttakendur á hverju tímabili í frístundastyrkjakerfið, hvort sem þeir nýta styrkinn hjá viðkomandi aðila eða ekki.

Brot á reglum og skilyrðum Frístundastyrksins geta leitt til samningsslita.

Reglur þessar verða endurskoðaðar eins oft og þurfa þykir.

Fyrst samþykkt í Bæjarstjórn Kópavogs 13.01. 2015
Samþykktar breytingar í Bæjarráði Kópavogs 1. júní 2017