14.04.2015
Menningarstyrkir í Kópavogi voru afhentir við hátíðlega athöfn í Salnum í hádeginu í dag. Alls 20 aðilar, einstaklingar, hópar, hátíðir eða samtök fá styrk úr lista- og menningarsjóði í ár. Upphæðin nemur um 14,5 milljónum króna.
Verkefnin sem hljóta styrk eru fjölbreytt að venju og má meðal annars nefna nýja lista- og tónlistarhátíð Cycle sem fram fer í Salnum, Gerðarsafni og víðar í Kópavogi í ágúst, útitónleika í Hamraborg undir stjórn Erps Eyvindarsonar, Tónlistarhátíð unga fólksins, sérviðburði á Riff kvikmyndahátíð og barnamenningarhátíð í lok maí svo fátt eitt sé nefnt. Kórar í Kópavogi fá einnig rekstrarstyrk sem og Sögufélag Kópavogs og Ritlistarhópur Kópavogs.