Nýjar og betri dælur hafa verið ræstar

Nýjar dælur fráveitukerfisins við Hafnarbraut í Kópavogi hafa nú verið settar í gang en slökkt var á dælustöðinni í byrjun vikunnar á meðan verið var að skipta út gömlum dælum fyrir nýjar. Allt gekk að óskum. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar - og Kópavogssvæðis fylgist með saurgerlamengun í Fossvoginum en fólki er ráðlagt að stunda ekki sjósund fyrr en ljóst er að niðurstöður séu jákvæðar.

Með nýjum dælum er verið að minnka líkur á mengun en þær sem fyrir voru, voru gamlar og slitnar, og dregið hafði úr afköstum þeirra.
 
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis voru látin vita þegar slökkt var á dælunum til að hægt væri að koma þeim nýju fyrir.
 
Sjósundsfólki var einnig gert viðvart.