- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Laugardaginn 9. ágúst klukkan 15:00 opnar Mireya Samper sýningu í efri sölum Gerðarsafns í Kópavogi sem ber heitið Flæði. Á sýningunni eru innsetningar með tví- og þrívíðum verkum sem unnin voru á árunum 2013 og 2014. Mireya Samper hefur helgað sig myndlist síðan hún brautskráðist frá listaháskóla í Frakklandi árið 1993. Hún hefur haldið sýningar víða erlendis og tekið þátt í fjölmörgum listahátíðum.
Um list Mireyu ritar Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur eftirfarandi:
“Mireya vinnur í margs konar efni, sem ráðast af þeirri hugmynd sem þau þjóna og af ytri aðstæðum. Þannig hefur hún unnið margar site specific innsetningar víðs vegar um heiminn. Að baki þessum verkum liggur skýr hugmyndavinna sem útfærist síðan í staðmiðaðan efnivið. Öll eiga þessi verk sameiginleg viss þemu og minni sem ganga eins og rauður þráður í gegnum sköpun hennar.
Mireyu er annt um náttúruna og lætur sig umhverfismál varða, eins og birtist á fínlegan hátt í mörgum verkum. Hún lætur sig einnig manninn og örlög hans skipta.
Óendanleikinn er birting alheimsins og verk Mireyu hvetja fólk til íhugunar og innri skoðunar, jafnframt því að tengjast „ytri heimum“ og hinu kosmíska.
Mireya notar ljós eða tilvísun í það sem tákn um okkar innra sjálf, um eitthvað æðra, um frið og alheimsleg gildi. það er oft táknað með silfurlit, á steini, tré,
laufum eða pappír. Hér er því aðallega um tunglsljós að ræða, hina kvenlegu birtu nætur sem hvílir, græðir og undirbýr fyrir komu dags og sólar.
Verk Mireyu hvetja okkur til að tengjast okkur sjálfum og um leið að opna okkur gagnvart umhverfinu, náttúrunni og hinu heilaga sem í öllu býr.“
Á síðasta ári var Mireya Samper meðal annars með einkasýningu í hinu þekkta listasafni M.K. Ciurlionis í Litháen. Hluti þeirrar sýningar er nú á sýningunni Flæði í Gerðarsafni. Árið 2013 tók Mireya auk þess þátt i samsýningum í fjórum löndum. Á þessu ári sýnir Mireya á Íslandi, í Svíþjóð, Ungverjalandi og Japan. Á næstu árum eru einnig fyrirhugaðar sýningar víða um lönd.
Mireya stofnaði listahátíðina Ferskir Vindir í Garði suður með sjó árið 2010 og hefur stjórnað henni síðan. Hátíðin er tvíæringur og hafa um 50 listamenn hvaðanæva úr heiminum hverju sinni tekið þátt í honum þau þrjú skipti sem hann hefur verið haldinn. Listafólkið dvelur hér á landi í fimm vikur, vinnur verk sína á staðnum í ýmsa miðla og sýnir í lok dvalar. Afrakstur sköpunarinnar eru myndlistasýningar, tónleikar, gjörningar og uppákomur sem allt er opið almenningi að kostnaðarlausu. Að hátíðinni lokinni verða flest listaverkin eftir í Garðinum og hefur listaverkaeign sveitarfélagsins margfaldast með þessum þremum hátíðum. Listafólkið leggur einnig af mörkum kennslu og fleira uppbyggilegt fyrir íbúa bæjarins. Næsta hátíð, sem hefst 15. desember 2015, er í fullum undirbúningi.
Um feril Mireyu sjá nánar á www.mireya.is og um Ferska Vinda sjá www.fresh-winds.com .