- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt aðgerðaráætlun innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. UNICEF á Íslandi hefur einnig samþykkt aðgerðaráætlunina en verkefnið er unnið í samstarfi við UNICEF.
Stefnt er að því að innleiðingu verði lokið fyrir árslok 2021 en að henni lokinni kemst Kópavogur í hóp Barnvænna sveitarfélaga, sem er verkefni sveitarfélaga með réttindi barna að leiðarljósi.
Aðgerðaráætlunin tekur til átján aðgerða sem skarast að einhverju leiti. Áhersla verður lögð á að skapa aðstæður fyrir börn og ungmenni til að taka þátt í starfsemi bæjarins. Jafnframt verður börnum auðveldað að tilkynna um erfiðleika sem þau eða félagar þeirra gætu verið að glíma við og barnavernd þarf að fá upplýsingar um.
Unnið verður markvisst að því að auka þekkingu á Barnasáttmálanum hjá börnum, öðrum íbúum og starfsfólki bæjarins. Gæðakerfið verður yfirfarið með tilliti til réttinda barna sem og jafnréttisáætlun og mannréttindastefnan. Ýmis önnur verkefni eru fyrirhuguð meðal annars að auka þátttöku barna í umhverfismálum.
Unnið hefur verið að undirbúning innleiðingar frá árinu 2018 þegar bæjarstjórn Kópavogs samþykkti að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Aðgerðaráætlunin byggir á fjölbreyttri greiningarvinnu á fyrirliggjandi opinberum gögnum um stöðu, heilsu og líðan barna í Kópavogi. Auk þess sem tekið hefur verið mið af skoðunum barna og ungmenna sem leitað var eftir í sérstakri könnun bæjarins, með rýnihópasamtölum og niðurstöðum ungmennaþings.
Aðgerðaráætlunin var kynnt á samráðsgátt og opið var fyrir athugasemdir íbúa haustið 2019. Þá var hún send til kynningar og umsagnar hjá nefndum og ráðum bæjarins. Í framhaldinu fóru allar aðgerðirnar í ítarlegri vinnu meðal sérfræðinga úr starfsliði Kópavogsbæjar sem mun sjá um innleiðingarferlið í þverfaglegri samvinnu.