- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Bæjar- og sveitarstjórar sem vinna að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, með þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög, fjölmenntu á samráðsfund undir stjórn UNICEF og mennta- og barnamálaráðuneytisins um verkefnið í Björtuloftum Hörpu í síðustu viku.
Á fundinum voru meðal annars kynningar á fyrirmyndarverkefnum Barnvænna sveitarfélaga, auk þess sem stjórnendur sveitarfélaganna tóku þátt í hringborðsumræðum með framkvæmdastjóra UNICEF og mennta- og barnamálaráðherra um verkefnið.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs sat fundinn fyrir hönd Kópavogs auk Önnu Elísabetar Ólafsdóttur, verkefnastjóra sem kynnti árangur innleiðingar Barnasáttmálans hjá Kópavogsbæ. Kópavogsbær fékk viðurkenningu UNICEF og þáverandi félags- og barnamálaráðherra sem Barnvænt sveitarfélag árið 2021 eftir þriggja ára samþætta vinnu starfsfólks og stýrihóps.
Aðgengi að skólasálfræðingum
Meðal þess sem Kópavogsbær sagði frá á samráðsfundinum og vakti athygli viðstaddra var aðgengi barna að skólasálfræðingum en í Kópavogi geta börn í 9. og 10.bekk leitað sé ráðgjafar hjá skólasálfræðingum, milliliðalaust. Þessi þjónusta kemur meðal annars til vegna ábendinga frá ungmennaþingi auk þess sem niðurstöður úr Mælaborði barna sýndi að þörf var á auknum stuðningi. Mælaborð barna er nýtt til að fylgjast með velferð barna í Kópavogi, og byggir á rannsóknum á gögnum sem varða börn. Það er eitt af verkefnunum sem hafa orðið til við innleiðingu Barnasáttmálans.
Þá var sagt frá verkefninu „Okkar skóli,“ en í því verkefni felst lýðræðisleg valdefling og virkjun barna um mótun og þróun eigin skólaumhverfis. Hver leikskóli og grunnskóli fá ákveðna upphæð á hvern nemanda sem nemendurnir sjálfir ákveða hvernig skuli ráðstafa í þágu skólans þeirra. Þá var fjallað um þátttöku barna í bæjarmálum bæjarins og sagt frá tilkynningarhnapp sem börn með spjaldtölvur, nemendur frá og með 5.bekk grunnskóla, geta nýtt til að senda inn tilkynningar til barnaverndar hafi þau áhyggjur og svo eitthvað sé nefnt.
Mikill metnaður
„Kópavogur stendur sannarlega undir nafni sem barnvænt sveitarfélag og við getum verið stolt af okkar verkefnum sem spanna fjölbreytt svið og ná til allra barna. Frá upphafi hefur verið mikill metnaður meðal starfsmanna Kópavogsbæjar við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í starfssemi bæjarins. Fjölmargir hafa komið að verkefninu og saman lagt kapp á að réttindi barna, samkvæmt Barnasáttmála, séu samofin inn í starfsemi Kópavogsbæjar “ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Markmið samráðsfundarins var meðal annars að fagna þeim ávinningi sem náðst hefur víðsvegar um landið með innleiðingu verkefnisins, þétta raðir stjórnenda sveitarfélaganna sem taka þátt og ræða mikilvægt hlutverk Barnvænna sveitarfélaga í innleiðingu nýrra laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.
Í heildina tóku bæjar- og sveitarstjórar 18 sveitarfélaga þátt í viðburðinum, ásamt Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, og Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra. Sérstakur gestur var Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri Barna- og fjölskyldustofu.
Umræður hringborðsins í lok fundar fólumst meðal annars í samtali um með hvaða hætti sveitarfélögin geti unnið enn betur saman að réttindum og velferð barna auk þess sem umræða myndaðist um sóknarfærin sem felast í því að innleiða Barnvæn sveitarfélög og farsældarlögin samhliða.