Vetrarhátíð í Kópavogi 2021

Vetrarhátíð í Kópavogi 2021.
Vetrarhátíð í Kópavogi 2021.

Tilfinningaþrungin barokktónlist, ástarsaga um mosa og íslensk þjóðlög í seiðandi útsetningum eru á meðal þess sem má njóta á Vetrarhátíð sem fram fer víðs vegar um Kópavog dagana 4.-7. febrúar. Í ljósi samkomutakmarkana verður áhersla á viðburði undir berum himni og viðburði fyrir fámennan áheyrendahóp en öllum fyrirmælum um sóttvarnir og fjöldatakmörk verður fylgt í hvívetna. Ókeypis er á alla viðburði en nauðsynlegt að skrá þátttöku þegar það á við.

 Ókeypis á tónleika og sviðsviðburði

Boðið verður upp á þrenna tónleika á föstudagskvöldinu 5. Febrúar. Elísabet Waage hörpuleikari og Laufey Sigurðardóttir fiðluleikaribjóða upp á íhugula vetrarkvöldstónleika í Safnaðarheimili Kópavogskirkju. Í Salnum kl. 19:30 flytja Ásgeir Ásgeirsson og þjóðlagasveit hans íslensk þjóðlög í seiðandi útsetningum þar sem m.a. Sigríður Thorlacius syngur.  Á síðkvöldstónleikum í Hjallakirkju mun tilfinningaþrungin barokktónlist hljóma í flutningi Þórunnar Völu Valdimarsdóttur, Hildigunnar Einarsdóttur, Gróu Margrétar Valdimarsdóttur, Júlíu Mogensen og Láru Bryndísar Eggertsdóttur.

Í gamla Hressingarhælinu í Kópavogi verður sett upp verkið Mosi og ég: Ástarsaga eftir Völu Höskuldsdóttur og mosa sem er verk fyrir einn áhorfanda í einu, dagana 6.-7. febrúar. Verkinu hefur verið lýst sem einstöku ferðalagi innávið þar sem að skynfærin fá að ráða för. Sýningar eru á klukkutíma fresti frá 11 - 20 báða dagana.

Í húsnæði Leikfélags Kópavogs laugardaginn 6. febrúar verður frumsýnt dansverkið Íslenski draumurinn eftir Mörtu Hlín Þorsteinsdóttur í samstarfi við FWD Youth Company við tónlist eftir Odd Kristjánsson (Sgandal).

Í fordyri Salarins í Kópavogi verður dans- og vídeóverkinu SKINN eftir Lilju Rúriksdóttur varpað á skjá á meðan Vetrarhátíð stendur yfir. SKINN er unnið í samstarfi við dansara FWD Youth Company og tónlistarmanninn Örn Ými Arason og er 20 mínútur í sýningu.

Myndlist og leiðsagnir

Hönnunarkollektívið ÞYKJÓ og Sóley Stefánsdóttir tónlistarkona kitla ímyndunaraflið með innsetningunni Skríðum inn í skel á jarðhæð Gerðarsafns. Á efri hæð standa yfir sýningar Magnúsar Helgasonar og Ólafar Helgu Helgadóttur í SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR sýningaröðinni og verður meðal annars boðið upp á krakkavæna leiðsögn um sýninguna með Sprengju-Kötu á laugardaginn og leiðsögn sýningastjóranna Brynju Sveinsdóttur og Hallgerðar Hallgrímsdóttur á sunnudaginn.

Eins og vaninn er á Vetrarhátíð verður Kópavogskirkja böðuð litum og ljósum, föstudagskvöldið 5.febrúar og verður gestum og gangandi boðið að koma inn í kirkjuna á sýninguna Alsjáandi: Ósamþykktar skissur að altaristöflu. Þar má sjá sýningu á tillögum Gerðar Helgadóttur að altaristöflu í Kópavogskirkju en sýningastjórar eru Anna Karen Skúladóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir. Í Midpunkt í Hamraborg sýnir Jóhannes Dagsson myndlistarmaður vídeóverkið Ég veit núna / fjórar athuganir.

List á förnum vegi

Á föstudaginn setja ungir vegglistamenn á vegum Molans upp glænýtt útigallerí, Gallerí Göng, í undirgöngunum við Hamraborg. Flanerí, nýr hljóðgönguhópur, býður upp á  hljóðvapp með áherslu á útilistaverk eftir Gerði Helgadóttur og Teresu Himmer sem verður aðgengilegt frá og með 5. Febrúar á www.flaneri.is. Á útisvæðinu fyrir framan Menningarhúsin mun Náttúrufræðistofa Kópavogs bjóða upp á Lífljómun, fallegan ratleik fyrir alla fjölskylduna þar sem sjónum er beint að lífljómandi lífverum og hinu innra ljósi. Við útivistarsvæði í kringum Lindasafn verður sett upp Ljóðaganga sem byggir á ljóðum sem nemendur Lindaskóla sendu inn í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs 2021.

Dagskrá Vetrarhátíðar í Kópavogi:

4.-7. febrúar á opnunartíma Gerðarsafns: Skríðum inn í skel með Þykjó og Sóley Stefánsdóttur

4.-7. febrúar á opnunartíma Lindasafns: Ljóðaganga um Lindahverfi

4.-7. febrúar á opnunartíma Bókasafns Kópavogs: Ljóðatré

Frá og með 5. Febrúar Hljóðganga FLANERÍ: hægt að nálgast á www.flaneri.is

5. febrúar kl. 18: Vetrarkvöld. Elísabet Waage og Laufey Sigurðardóttir í Safnaðarheimili Kópavogskirkju, Hábraut 1a

5. febrúar kl. 18 og 19: Micro:bit. Tækjaforritun í Bókasafni Kópavogs
5. febrúar frá 18 - 21: Sýndarveruleiki í Beckmannstofu, Bókasafni Kópavogs
5. febrúar frá 18 - 22: Gallerí Göng í gömlu skiptistöðvargöngunum í Hamraborginni

5. febrúar frá 18 - 24: Kópavogskirkja böðuð ljósum

5. febrúar kl. 19:30: Þjóðlagasveit Ásgeirs Ásgeirssonar í Salnum í Kópavogi, Hamraborg 6

5. febrúar kl. 21:00: Barokktónleikar í Hjallakirkju, Álfaheiði 17

5.-7. Febrúar ALSJÁANDI í Kópavogskirkju, Hamraborg 2

                           Opnunartími: 5/2 kl. 17-21 og 6-7/2 kl. 12-16

5.-7. Febrúar Ég veit núna/fjórar athuganir í Midpunkt,

                           Opnunartími: 5/2 kl. 17-21 og 6-7/2 kl. 14-17

5.-7. febrúar Lífljómun á Náttúrufræðistofu Kópavogs
5.-7. febrúar
SKINN í Salnum

6. febrúar kl. 12: Leiðsögn um sýninguna Alsjáandi í Kópavogskirkju með Önnu Karen Skúladóttur, Hallgerði Hallgrímsdóttur og séra Sigurði Arnarsyni, sóknarpresti í Kópavogskirkju.
6. febrúar kl. 13: Fjölskylduleiðsögn með Sprengju-Kötu um sýninguna SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR í Gerðarsafni
6.febrúar kl. 15 og 16:30: Íslenski draumurinn. Dansverk eftir Mörtu Hlín og FWD Youth Company í húsnæði Leikfélags Kópavogs, Funalind 2.

6. & 7. febrúar frá 11 – 20 (á klukkutíma fresti): Mosi og ég: Ástarsaga eftir Völu Höskuldsdóttur og mosa í Gamla Hressingarhælinu, Kársnesi, Kópavogi.

7.febrúar kl. 13: Sýningaleiðsögn um SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR í Gerðarsafni með Brynju Sveinsdóttur og Hallgerði Hallgrímsdóttur.