Vatnsdropinn hlýtur styrk úr Erasmus+

Vatnsdropinn
Vatnsdropinn

Vatnsdropinn, nýtt alþjóðlegt menningar- og náttúruvísindaverkefni, sem Kópavogsbær á frumkvæði að, hlaut nýverið 32 milljóna króna styrk úr Erasmus+. Alls hefur Vatnsdropinn því hlotið 64milljón króna styrktarfé. 

Vatnsdropinn er umfangsmikið samstarfsverkefni Menningarhúsanna í Kópavogi, Múmínálfasafnsins í Finnlandi, Ilon’s Wonderland í Eistlandi og H.C. Andersen safnsins í Danmörku. Verkefnið hefur verið þróað í samvinnu breiðs hóps fagfólks sem starfa við stofnanirnar auk annarra sérfræðinga. 

Í rökstuðningi Erasmus+ segir: “Vatnsdropinn er ákaflega vel mótað verkefni sem byggir á skýrri hugmyndafræði og skilvirkri verkaskiptingu á milli þátttökulandanna fjögurra. Að baki Vatnsdropanum eru afar öflugar og reynslumiklar menningarstofnanir.” 

Meginþráður Vatnsdropans er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna við sígild verk barnabókahöfunda Tove Jansson, höfund Múmínálfanna, Astrid Lindgren og H. C. Andersen. Virðing fyrir náttúru og innsýn í heim þeirra sem minna mega sín eru meðal þess sem einkennir verk höfundanna og hefur höfundaverk þeirra þannig margvíslegar tengingar við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.  

„Vatnsdropinn fellur vel að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi og verður spennandi að fylgjast með þessu alþjóðlega samstarfsverkefni sem setja mun svip sinn á menningarstarf í Kópavogi næstu árin,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. 

Eitt af markmiðunum með Vatnsdropanum er að nýta efnivið Heimsmarkmiðanna og skáldverkanna til að þróa nýja aðferðarfræði við gerð fræðsluefnis til barna sem heimsækja söfn. Afrakstur verkefnisins mun einnig birtast í vinnustofum, námskeiðum og sýningarhaldi undir stjórn barna. Þannig munu bæði börn og fullorðnir, leikir og lærðir njóta góðs af Vatnsdropanum. 

Á Barnamenningarhátíð í Kópavogi 2021 verður viðburðadagskrá tengd Vatnsdropanum. Fyrsta sýning undir merkjum Vatnsdropans verður svo opnuð í júní 2021 í Gerðarsafni á Alþjóðlegum degi umhverfis og eru það börn á aldrinum níu til tólf ára frá samstarfslöndunum fjórum sem stýra sýningunni, undir sýningarstjórn Chus Martínez, listfræðings og sýningarstjóra, og fagfólks í hverju landi fyrir sig.  

„Vatnsdropanum er ætlað að tengja saman listir, vísindi og bókmenntir á áður óþekktan hátt. Verkefnið er langstærsta alþjóðlega menningarverkefnið sem Kópavogsbær hefur átt frumkvæði að. Í því felast mörg ný tækifæri fyrir menningarlífið í Kópavogi en samtímis er það áhugaverður vettvangur fyrir lista- og fræðimenn hérlendis og erlendis sem við viljum fá til samstarfs,“ segir Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi. 

Vatnsdropinn er samstarfsverkefni til þriggja ára og er heildarkostnaður áætlaður um 90 milljónir. Kópavogsbær á frumkvæði að verkefninu en þróun þess hefur verið unnin í samvinnu þátttakenda og verður útkoman sýnd í öllum menningarstofnunum sem að því standa.  

Sjóðir sem styrkt hafa Vatnsdropann auk Erasmus+ eru Norræni menningarsjóðurinn, Norræna menningargáttin, Menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar (Nordplus), Lista- og menningarsjóður Kópavogs og Barnamenningasjóður Íslands. 

Soffía Karlsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson