Sundlaugar, söfn og íþróttahús lokuð

Sundlaugar í Kópavogi verða áfram lokaðar, rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu öllu.
Sundlaugar í Kópavogi verða áfram lokaðar, rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Íþróttamannvirki sveitarfélaga, sundlaugar og söfn verða áfram lokuð á öllu höfuðborgarsvæðinu, þar með talið Kópavogi. Þá verða íþróttir barna í skólum áfram utandyra og skólasund fellur niður.  Þetta er sameiginleg ákvörðun sveitarfélaganna sem verður endurskoðuð að viku liðinni. 

Nánar:

Höfuðborgarsvæðið er á viðkvæmum tíma í faraldrinum. Smitum á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fækkandi síðustu daga. Næstu daga er mikilvægt að ná enn frekari tökum á þessari bylgju svo hægt verði aftur að draga úr sóttvarnarráðstöfunum í stað þess að herða frekar á þeim.

Sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið.

Samfélagið á mikið undir því að það takist að halda skólastarfi gangandi. Því er lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Að öðrum kosti getur eitt smit leitt til að óþarflega stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í einangrun eða sóttkví.

Eftir ítarlega yfirferð yfir stöðuna og í ljósi leiðbeininga sóttvarnaryfirvalda og í samráði við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins hafa skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tekið þá ákvörðun að öll íþróttakennsla muni fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna og einnig mun skólasund falla niður.

Öll íþróttamannvirki og sundlaugar á vegum sveitarfélaganna verða lokuð. Söfn sem rekin eru á vegum sveitarfélaganna verða einnig lokuð.

Þessi ákvörðun verður endurskoðuð að viku liðinni, í takt við álit sóttvarnalæknis.