Skólastarf í Kópavogi í samkomubanni

Skólahald í Kópavogi í samkomubanni er öðruvísi háttað en vant er.
Skólahald í Kópavogi í samkomubanni er öðruvísi háttað en vant er.

Í Kópavogi er verið að skipuleggja skólastarf næstu vikurnar með það að leiðarljósi að tryggja sem mestan stöðugleika, öryggi og virkni barnanna okkar.  Þessir tímar eru mikil áskorun fyrir okkur öll og það sem einkennir starfið núna er einstök samheldni, jákvæðni og samstaða um að vinna sem best úr aðstæðum með hag barnanna okkar að leiðarljósi.

 

Leikskólar

Í leikskólunum er almennt lagt upp með að skipta barnahópnum í tvo hópa og dvalartíminn skiptist því á milli þeirra. Opnunartími styttist lítillega til að skapa svigrúm fyrir góðan frágang í lok. Leikskólakennarar munu leitast við að halda uppi faglegu starfi og virkni barna, meðal annars með mikilli útiveru í samræmi við veður og aðrar aðstæður. Börn matast í heimastofunum sínum og reynt verður að skapa hlýlegar og notalegar aðstæður fyrir börnin okkar eins og hægt er.

Grunnskólar

Í grunnskólunum er lögð áhersla á að tryggja börnum á yngsta stigi sem mesta viðveru í skóla. Aðstæður geta verið nokkuð misjafnar milli skóla og daglegt skipulag ræðst af því. Börnin taka með  sér nesti og matast að mestu í heimastofum.

 

Skólar í Kópavogi standa vel að vígi þar sem allir nemendur í 5.-10. bekk eru með spjaldtölvur og nýta þær mikið í námi,  Á miðstigi og unglingastigi verður lögð áhersla á skilvirkni náms með virkum stuðningi og leiðsögn kennara í gegnum möguleika snjalltækninnar. Kennarar munu halda reglulegum tengslum við nemendur sína, bæði með viðveru í skólum og fjarfundum.

Sérúrræði grunnskólanna halda sinni þjónustu við nemendur eins og kostur er.

 Almennt munu kennarar leggja mikla áherslu á að börn fái útiveru og góða hreyfingu en kennsla í íþróttum og sundi fellur niður og list- og verkgreinakennsla sömuleiðis.

 

Frístund

Opið verður í frístund grunnskólanna en þjónusta þar getur orðið skert, meðal annars með styttri dögum og/eða hópar skiptist milli daga. Fyrirkomulag frístundar er misjafnt eftir skólum í samræmi við aðstæður.

Félagsmiðstöðvar

Opnanir í félagsmiðstöðvum verða árgangaskiptar og hópar minnkaðir þannig að hver árgangur ætti að fá að minnsta kosti eina kvöldopnun á viku með óbreyttum opnunartíma.

Tónlist

Tónlistarskólar og Skólahljómsveit eru að útfæra sínar leiðir til að mæta breyttum aðstæðum í skólastarfinu og munu upplýsa foreldra um það jafn óðum.

Nánari útfærsla á skipulagi skóla- og leikskólastarfs og frítímastarfs er í höndum hvers skóla fyrir sig í samræmi við aðstæður á hverjum stað. Foreldrar eru hvattir til að fylgjast vel með skilaboðum og leiðbeiningum.