Lokahátíð Skapandi sumarstarfa haldin í 19. skipti

Birta Ásmundsdóttir og Inga María Olsen skipa danshópinn Rólegan Æsing.
Birta Ásmundsdóttir og Inga María Olsen skipa danshópinn Rólegan Æsing.

Lokahátíð Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi fór fram í Salnum miðvikudag 7. ágúst. Í ár er 19. sumarið sem ungt listafólk starfar á vegum Kópavogsbæjar í skapandi verkefnum.

 

 

Skapandi Sumarstörf í Kópavogi veita ungu listafólki á aldrinum 20-26 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins. Í sumar eru starfrækt 11 spennandi og ólík verkefni en að baki þeim standa 26 ungir listamenn úr mismunandi listgreinum.

 

 

Hátíðin var vel sótt og var þetta í annað skipti sem listafólki Skapandi Sumarstarfa bauðst að sýna afrakstur sumarsins í Salnum en þau hafa verið í sérstöku samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi og hafa boðið upp á fjölbreytta viðburðadagskrá í allt sumar.

 

 

Dagskráin stóð yfir frá 19.30 - 22.00 en sýningin hófst á skemmtilegri dansuppákomu með danshópnum Rólegan Æsing og lauk með ljúfum tónum sem hljómsveitin Amor Vincit Omnia flutti. Listamannabásum var komið fyrir í forsalnum þar sem gestir gátu skoðað bæklinga, myndlista- og myndbandsverk áður en gengið var inn í sal. Meðal atriða sem komu fram voru brot úr leikritum, stuttmyndir, sketsar og tónlistaratriði.

 

Facebook síða Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi

Instagram síða Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi