Engin mengun er í Fossvogi samkvæmt mælingum heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar - og Kópavogssvæðis. Heilbrigðiseftirlitið hefur að undanförnu fylgst sérstaklega vel með Fossvoginum þar sem slökkt var tímabundið á dælustöð við Hafnarbraut í Kópavogi vegna endurnýjunar á dælum.
Með nýjum dælum er verið að minnka líkur á mengun en þær sem fyrir voru, voru gamlar og slitnar, og dregið hafði úr afköstum þeirra.
Fólki var ráðlagt að stunda ekki sjósund í tiltekinn tíma eftir að slökkt hafði verið á dælustöðinni. Fyrir nokkru var hún hins vegar sett í gang að nýju.
Niðurstöður mælinga í Fossvogi eru nú jákvæðar.