Íþróttakona og íþróttakarl ársins 2024 kosin af íbúum

Bikarar
Bikarar

Kópavogsbúar geta haft áhrif og kosið um íþróttafólk ársins 2024.

Rafræn íbúakosning um íþróttakarl og íþróttakonu Kópavogs 2024 verður á heimasíðu Kópavogsbæjar í gegnum þjónustugátt Kópavogs.

Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilnefningum frá íþróttafélögunum. Kjósa má einn íþróttakarl og eina íþróttakonu.

Kosning hefst þann 19. desember 2024 og lýkur 5. janúar 2025.

Niðurstaða kosninganna verður síðan kynnt á Íþróttahátíð Kópavogs í Salnum, fimmtudaginn 8. janúar 2025 kl. 17:30, en þar verða jafnframt veittar viðurkenningar vegna íþróttaársins 2024.

Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2024.

 

Aron Snær Júlíusson - kylfingur - Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

 Aron Snær

Atvinnukylfingurinn Aron Snær Júlíusson hefur verið meðal allra fremstu kylfinga landsins undanfarin ár sem landsliðsmaður og seinustu tvö ár sem atvinnumaður. Aron er Íslandsmeistari í golfi 2024. Þetta er í annað sinn sem Aron verður Íslandsmeistari í golfi. Á Íslandsmótinu 2024 setti hann nýtt mótsmet með því að leika Hólmsvöll í Leiru á 14 höggum undir pari. Aron var einnig stigameistari karla á GSÍ mótaröðinni 2024. Hann tók þátt í fjórum mótum erlendis á árinu og náði sínum besta árangri á ECCO Tour Polish Masters í Póllandi þar sem hann hafnaði í 3. sæti. Þá varð hann í 9. sæti á Gamle Fredrikstad Open í Danmörku og í 10. sæti á Sand Valley Spring Series Final by ECCO í Póllandi.

 

Ásta Eir Árnadóttir - knattspyrnukona - Breiðabliki

Ásta Eir Árnadóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki

Ásta Eir var fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu kvenna og átti stóran þátt í að félagið varð Íslandsmeistari á árinu eftir hreinan úrslitaleik við Val. Hún lék alls 22 leiki í deildinni sem miðvörður og skoraði 1 mark. Í lok tímabilsins var hún svo valin í lið ársins í Bestu deild kvenna. Einnig lék hún með liðsfélögum sínum til úrslita í bikarkeppni KSÍ, þar sem liðið tapaði naumlega fyrir Val og hlaut því silfur. Eftir tímabilið gaf hún það út að hún hefði ákveðið að leggja skónna á hilluna eftir frábæran feril. Ásta Eir lék allan sinn feril fyrir Breiðablik, alls 300 leiki og skoraði í þeim 19 mörk. Hún á einnig að baki 12 A-landsleiki fyrir Ísland.

 

Guðlaug Edda Hannesdóttir - þríþrautarkona - Breiðabliki

Guðlaug Edda Hannesdóttir

Guðlaug Edda átti einstaklega viðburðaríkt keppnisár þar sem hún keppti víða um heim með það að markmiði að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París 2024. Það hafðist með miklu harðfylgi og varð hún því fyrst Íslendinga til að keppa í þríþraut á Ólympíuleikum. Þrátt fyrir áföll í keppninni sjálfri náði hún að ljúka henni og hafnaði að lokum í 51. sæti í París. Í aðdraganda leikana komst Guðlaug á verðlaunapall í þremur erlendum mótum og sigraði meðal annars á South-Asia Continental Cup í Pokahara í Nepal. Í lok árs var Guðlaug Edda svo valin þríþrautarkona ársins, en þetta er í sjöunda skiptið sem hún hlýtur nafnbótina þríþrautarkona ársins.

 

Hulda Clara Gestsdóttir - kylfingur -  Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

Hulda Clara

Hulda Clara hefur verið fremsti kylfingur GKG undanfarin ár, landsliðskylfingur og Íslandsmeistari í höggleik kvenna 2024. Þetta er í annað skipti sem hún verður Íslandsmeistari kvenna í höggleik. Hulda Clara sigraði Hvaleyrarbikarinn í ágúst 2024 en það mót er hluti af mótaröð GSÍ. Hún hlaut Guðfinnubikarinn, sem er veittur þeim áhugakylfingi í kvennaflokki á Íslandsmóti í golf sem er á lægsta skori. Hún lék með kvennalandsliði Íslands á Evrópumóti landsliða og einnig á Evrópumóti einstaklinga í kvennaflokki þar sem hún varð í 36. sæti. Hulda Clara er stigameistari kvenna á GSÍ mótaröðinni 2024. Hún keppir með háskólaliði University of Denver og sigraði á Summit League Women's Championship í apríl 2024, sem var hennar fyrsti sigur á háskólamóti í Bandaríkjunum. Sem stendur er Hulda Clara í 224. sæti á heimslista áhugamanna í golfi.

 

Höskuldur Gunnlaugsson  - knattspyrnumaður - Breiðabliki

 Höskuldur Gunnlaugsson

Höskuldur er fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu karla og átti stóran þátt í að félagið varð Íslandsmeistari á árinu eftir hreinan úrslitaleik við Víking. Hann spilaði alla leikina í mótinu, alls 27 leiki og skoraði 9 mörk. Í lok tímabilsins var hann var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins af leikmönnum Bestu deildar karla ásamt því að vera valin í lið ársins í Bestu deildinni. En flestir fjölmiðlar völdu Höskuld besta leikmanninn keppnistímabilið 2024. Höskuldur hefur verið lykilmaður og frábær leiðtogi í Breiðabliksliðinu undanfarin ár bæði innan vallar sem utan. Hann er virkilega góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, bæði hvað varðar ástundun en ekki síður hvernig hann kemur fram fyrir hönd félagsins.

 

Ingvar Ómarsson hjólreiðamaður úr Breiðabliki

Ingvar Ómarsson

Ingvar átti frábært keppnisár 2024 og náði að sigra alls 13 keppnir á árinu. Hann varð Íslandsmeistari í fjórum greinum, sem eru tímataka, cyclocross, maraþon fjallahjólreiðar og e-hjólreiðar. Ingvar náði 3. sætinu í The Rift malarkeppninni sem er stærsta hjólamót sem er haldið á Íslandi. Hann var þar fremstur af þeim Íslendingum sem tóku þátt, en alls tóku 1000 keppendur þátt í mótinu. Ingvar tók þátt í fjórum erlendum stórmótum í malarhjólreiðum á árinu. Hann náði sínum allra besta árangri með 11. sætinu í The Traka 360, sem er ein stærsta malarhjólakeppni Evrópu. Hann gerði sér svo lítið fyrir og sigraði í götuhjólakeppninni La Titanica á Spáni í mars. Á Heimsmeistaramótinu í malarhjólreiðum varð Ingvar svo í 146. sæti af 251 keppanda.

 

Jón Þór Sigurðsson - skotíþróttamaður - Skotíþróttafélagi Kópavogs

Jón Þór Sigurðsson

Skotíþróttamaðurinn Jón Þór Sigurðsson átti feikilega gott keppnisár 2024. Hann gerði sér lítið fyrir og náði í silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Osijek í Króatíu í 50 m prone á 627.0 stigum, sem eru 600 stig i gamla kerfi og jöfnun á heimsmeti. Hér heima sigraði hann í þremur af fjórum mótum í 50m prone. Hann varð Íslandsmeistari 25m grófbyssu, overall, flokkur og liða. Íslandsmeistari í í 25m sportpistol 22lr, overall, flokkur og liða. Hann varð einnig í þriðja sæti í loftskammbyssu overall og Íslandsmeistari í flokk og liðakeppni. Að lokum sló hann eigið íslandsmet á alþjóðlegu innanhúsmóti í Aarhus, með 628.5 stig.

 

Sóley Margrét Jónsdóttir -  kraftlyftingakona - Breiðabliki

Sóley Margrét Jónsdóttir

Sóley Margrét Jónsdóttir sýndi það á árinu að hún er einn fremsti íþróttamaður Íslands. Hún varði Evrópumeistaratitil sinn í +84 kg flokki og varð svo fyrst íslenskra kvenna að verða Heimsmeistari í kraftlyftingum. Á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum sigraði Sóley í +84 kg. fl. með 677,5 kg. í samanlögðum árangri, sem er jafnframt bæting á hennar eigin Íslandsmeti. Sóleyju tókst svo það merka afrek á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum að verða Heimsmeistari í kraftlyftingum fyrst íslenskra kvenna. Hún sigraði með yfirburðum í +84 kg. fl. á nýju heimsmeti unglinga (U23) í samanlögðum árangri með 710 kg. Hún vann til gullverðlauna í hnébeygju, silfurverðlaun í bekkpressu og réttstöðulyftu. Þá bætti hún Íslandsmetin í öllum greinum, bæði í unglinga- og opnum flokki. Sóley er afburða afreksíþróttamaður í heimsklassa en einnig mikil fyrirmynd kraftlyftingafólks „utan palls“ og tekur virkan þátt í uppbyggingarstarfi íþróttarinnar.

 

Thelma Aðalsteinsdóttir - fimleikakona - Gerplu

Thelma Aðalsteinsdóttir

Thelma Aðalsteinsdóttir átti frábært fimleikaár 2024. Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut í þriðja sinn, Íslandsmeistari á stökki, slá og gólfi. Hún varð einnig bikarmeistari með liði sínu í Gerplu. Hún varð Norðurlandameistari í liðakeppni, endaði í 2. sæti í fjölþraut ásamt því að verða Norðurlandameistari á gólfi. Thelma varð Norður Evrópumeistari á öllum áhöldum og hlaut annað sæti í fjölþraut. Er þetta sögulegur árangur og besti árangur keppanda frá Íslandi. Thelma keppti á Evrópumótinu á Ítalíu þar sem hún endaði í 41. sæti og var hársbreidd frá því að tryggja sig inná ólympíuleikana í París. Á Evrópumótinu í Rimini framkvæmdi hún æfingu á tvíslá sem þar var skírð eftir henni "Aðalsteinsdóttir". Hún keppti einnig á tveim heimsbikarmótum þar sem hún komst í úrslit á 3 áhöldum og náði best fjórða sæti á gólfi. Í lok árs var Thelma svo valin fimleikakona ársins 2024.

 

Valgarð Reinhardsson fimleikamaður úr Gerplu

Valgarð Reinhardsson

Valgarð hefur verið okkar langfremsti fimleikamaður í karlaflokki undanfarin ár. Hér heima varð hann á árinu Íslandsmeistari i fjölþraut í áttunda sinn, Íslandsmeistari á tvíslá og svifrá og hafnaði í 2. sæti á hringjum auk þess að verða Bikarmeistari með liði Gerplu. Á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum í Osló vann hann ásamt liði sínu söguleg bronsverðlaun, liðið hefur aldrei komist á pall á Norðurlandamóti áður. Hann varð Norðurlandameistari á gólfi ásamt því að vinna til silfurverðlauna á svifrá og bronsverðlaun á tvíslá. Á Evrópumótinu á Ítalíu í apríl var Valgarð hluti af feikna sterku liði Íslands sem varð í 19. sæti, sem er þeirra besti árangur til þessa. Valgarð varð einnig stigahæstur í fjölþraut með 78.297 stig sem skilaði honum í 33. sæti. Í lok árs var Valgarð svo valin fimleikamaður ársins 2024.