- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Dagskrá Skapandi Sumarstarfa er afar fjölbreytt og metnaðarfull í sumar. Listhóparnir stóðu fyrir ýmsum viðburðum í og um bæinn í síðasta mánuði en dagskrá júlímánaðar er ekki síðri.
Skapandi Sumarstörf í Kópavogi veita ungu listafólki á aldrinum 20-26 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins. Í sumar eru starfrækt 11 spennandi og ólík verkefni en að baki þeim standa 26 ungt listafólk úr mismunandi listgreinum.
Dagskrá Skapandi Sumarstarfa sumarið 2024
Eggjandi Eggja Gjörningur með Eggjum
Listadúóið Viskustykki, þær Iðunn Gígja og Guðný Margrét, sýna eggjandi myndband og fremja alræmdan eggjagjörning, algjört áhættuatriði! Einbeitingin er í hámarki, en það er samt aldrei stutt í glensinn hjá þessum tveim. Gjörningurinn fer fram klukkan 12 að hádegi, en innsetningin stendur yfir út daginn.
Bolasmiðja með Bacterial Girls
Listhópurinn Bacterial Girls samanstendur af þeim Vöku, Sunnu og Valdís en í sumar hafa þær tekið bakteríusýni af mörgum af helstu kennileitum Kópavogs og ræktað þau. Mynstrin sem bakteríurnar mynda eru svo skönnuð inn og mynda þau skapalón.
Á þessari smiðju er í boði að koma með eigin boli og gefa þeim nýtt líf. Hópurinn notar sólarprent aðferð til að færa myndirnar af sýnunum yfir á bolina. Opið hús er á náttúrustofu Bókasafnins á milli 13 og 16 en athugið að prentunin tekur um klukkustund og því best að mæta ekki seinna en 15 til að fá bolaprentun.
Tilraunakvöld Skapandi Sumarstarfa
Verið velkomin á tilraunakvöld þar sem listafólk Skapandi sumarstarfa Kópavogs kemur saman, prufukeyrir nýtt efni og leyfir áhorfendum að skyggnast inn í verk í vinnslu.
Aukalag: Kvöldstund á Mossley
Aukalag er hlaðvarpssería í umsjá Egils Gauta og Elíasar Geirs. Í hverjum þætti velja þeir félagar sér eina hljómplötu til þess að rýna í og greina og leggja þeir svo fyrir sig verkefnið að búa til eitt frumsamið aukalag á plötuna. Á Mossley verður veitt innsýn inn í ferlið þar sem flutt verður lifandi útgáfa af þættinum.
Busl í Gerðarsafni
Á neðri hæð safnsins, í rýminu bak við stigann, verður ein fjögurra stuttmynda þeirra Júlíu, Melkorku og Stefaníu sýnd en verkefni þeirra ber nafnið Orðaskipti.
Í myndinni Busl er kafað djúpt ofan í þjóðarsálina, en sundmenningin er okkur landsmönnum öllum kær. Í lauginni getum við skvett úr klaufunum, spjallað, synt, flotið og sprellað án rafrænna truflanna. Þær Júlía og Melkorka ræða málin í potti Kópavogslaugar – heimsækja þeirra innra barn og kryfja tilfinningalegu tengslin við stóra baðið.
Bolasmiðja með Bacterial Girls
Skaðleysi - Samlestur
Tónleikar í sundi með Amor Vincit Omnia
Verkefnið Stupid Cupid er safn af ástarlögum sem fylgja sambandi frá byrjun til enda, frá fyrstu kynnum til sambandsslita, samin og flutt af Erlu Hlín og Baldri Skúlasyni sem mynda saman hljómsveitina Amor Vincit Omnia.
Þau ætla sér að kynna og rannsaka eðli ástarlaga en líka að nýta vitneskju sína á ástinni og tónlist til þess að fanga tilfinningar í lögunum. Markmiðið er að gefa fólki tækifæri á að upplifa heilt samband á nokkrum mínútum. Erla og Baldur flytja ástarlögin sem þau hafa samið í sumar á tónleikum sínum í Sundlaug Kópavogs. Þau lofa góðri, heitri og blautri stemningu.
Leiksýningin Handaband
Leikhópurinn Hlæja og gráta frumsýnir leiksýninguna Handaband sem fjallar um litróf vináttunnar en í leikhópnum eru þau Katla Yamagata og Grímur Smári. Sýningin er leiðarvísir sem kennir áhorfendum að eiga vin - sjáðu hann vin þinn, manstu hvað þér þykir vænt um hann?
Ballett í Sundi
Júlía, Lísbet og Diljá dansa brot út vídjóverkinu "Ást í dvala" fyrir sundlaugagesti. Ást í dvala er ballett örverk í vídeó formi en ballett var fyrsta ástin þeirra Júlíu, Lísbetar og Diljár sem myndaði erfitt samband við það hvernig þær elska. Ballettinn skipaði þeim að vera litlar, fíngerðar og fallegar en á sama tíma bannaði þeim að taka of mikið pláss. Ballettinn gat ekki elskað þær til baka því hann krafðist fullkomnunar sem þær gátu ekki uppfyllt.
Dansverkið Rólegan Æsing
Að baki verkefninu standa þær Birta Ásmundardóttir og Inga María Olsen en dansverk þeirra rannsakar skammakrókinn. Reglurnar í skammakróknum eru skýrar en alls ekki skemmtilegar, allavega að þeirra mati. En, í þetta skiptið eru þær ekki einar þar sem að þið voruð öll send í skammakrókinn líka.
Forsýning á grínþættinum Viskustykki
Stuttmyndahátíð Orðaskipta
Verkefni Júlíu Gunnarsdóttur, Melkorku Gunborgar Briansdóttur og Stefaníu Stefánsdóttur í Skapandi sumarstöfum Kópavogs árið 2024 er að skrifa, taka upp og klippa fjórar stuttmyndir. Með þeim er rýnt í ólík samskipti milli fólks - með og án orða.
Orðaskipti eru fjölbreytt og þau eru síbreytileg. Þau eru spennandi og leiðinleg. Falleg og vandræðaleg. Stundum er maður misskilinn og stundum óskiljanlegur. Og stundum segja orðin bara hálfa söguna. Áður en stuttmyndasýningin hefst mun hljómsveitin Amor Vincit Omnia taka á móti fólki með ljúfum ástartónum.
Uppskeruhátíð Skapandi Sumarstarfa
Skapandi sumarstörf í Kópavogi bjóða til glæsilegrar uppskeruhátíðar í Salnum í Kópavogi þar sem afrakstur sumarsins verður sýndur á stóra sviðinu og í anddyri Salsins. Húsið opnar kl. 19:30 þar sem básarnir verða opnir og dagskrá á sviði hefst svo kl. 20:00. Eitt hlé verður gert á sýningunni þar sem að básarnir verða einnig til sýnis. Frítt inn og öll velkomin!
Við hvetjum bæjarbúa til að kynna sér starfsemi Skapandi Sumarstarfa og nýta tækifærið til að uppgötva listafólk framtíðarinnar. Ókeypis aðgangur er á alla viðburði.
Hægt er að lesa meira um viðburðina á facebook-síðu Skapandi Sumarstarfa og á vefsíðu Menningarhúsa Kópavogs.