Axel Ingi ráðinn forstöðumaður Salarins

Axel Ingi Árnason.
Axel Ingi Árnason.

Axel Ingi Árnason hefur verið ráðinn forstöðumaður Salarins.

Axel Ingi er með BA og M.Mus í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistarapróf í menningarstjórnum frá Háskólanum á Bifröst.Hann hefur starfað sem tónskáld, lagahöfundur, kórstjóri og píanóleikari. Má þar nefna að hann samdi og flutti tónlistina í leikritinu Góðan daginn Faggi eftir Bjarna Snæbjörnsson og Grétu Kristínu Ómarsdóttur sem sló í gegn og hlaut fyrir verkið tilnefningar til Grímunnar og Íslensku tónlistarverðlaunanna. Axel Ingi ásamt Pétri Karli Heiðarsyni samdi einnig tónlistina í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á And Björk of Course eftir Þorvald Þorsteinsson. Þá hefur hann samið tónlist fyrir fjölmörg önnur leikrit og kvikmyndir.

Axel Ingi hefur einnig unnið við texta- og handritaskrif fyrir leiksýningar og sjónvarpsþætti, sett á fót eigin leiksýningar og tónlistarviðburði, verkefnastýrt viðburðum og unnið sem kórstjóri og píanókennari. Hann hefur frá hausti 2022 starfað sem verkefnastjóri viðburða og rekstrar í Salnum en frá því mars 2024 hefur Axel Ingi verið starfandi forstöðumaður Salarins.

Alls sóttu 30 um stöðu forstöðumanns, en tveir drógu umsókn sína til baka.

Forstöðumaður er ráðinn til fimm ára með möguleika á framlengingu.

„Axel Ingi hefur metnaðarfulla sýn á framtíð Salarins sem er einstakt tónlistarhús auk þess að vera vettvangur viðburða af ýmsum toga. Þá er afar ánægjulegt að fá hann í hóp öflugra menningarstjórnenda í Kópavogi,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

„Axel Ingi hefur mikla þekkingu og innsýn í ólíkar tónlistarstefnur sem mun nýtast afar vel. Þá hefur hann mikinn metnað fyrir menningarstarfi í Kópavogi og mun leggja þar dýrmætt lóð á vogarskálarnar,“ segir Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.

Salurinn var vígður fyrir 25 árum og er fyrsta tónlistarhús á Íslandi sem hannað er með flutning tónlistar í huga.