- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Haldið verður upp á 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með pompi og prakt í Kópavogi miðvikudaginn 20. nóvember. Stór hluti barna bæjarins tekur þátt í viðamikilli dagskrá sem fram fer í Menningarhúsunum í Kópavogi frá kl. 9 til 13. Í dagskránni er áhersla lögð á umhverfis- og loftslagsmál, frið, réttindi og þátttöku barna í samfélaginu.
Þá opnar sýning á verkum leikskólabarna í Smáralind síðdegis þar sem birtist túlkun barna á Barnasáttmálanum og loks dansa unglingar úr Kópavogi fyrir réttindum í félagsmiðstöðinni Þebu.
Kópavogsbær er að innleiða Barnasáttmála SÞ og því vel við hæfi að fagna afmælinu með glæsibrag.
Dagskrá dagsins er unnin í samvinnu leik- og grunnskóla bæjarins, frístundaheimila og Menningarhúsanna í Kópavogi.
Nánar um dagskrá:
9.00: Salurinn
Dagskráin hefst þegar sýningin Friður verður opnuð í Salnum. Sýningin er unnin af börnum á leikskólanum Rjúpnahæð og byggir á túlkun barnanna á friði. Hún var unnin út frá stefnu leikskólans sem byggist á sjálfræði með lýðræði að leiðarljósi. Í leikskólanum er áhersla lögð á að hlusta á raddir og sjónarmið barna, sem er í fullu samræmi við Barnasáttmálann.
Við opnun sýningarinnar verður Friðarlagið flutt af elstu börnum leikskólanna Rjúpnahæðar, Urðarhóls, Grænatúns, Kópasteins, Austurkórs og Álfaheiðar. Friðarlagið var samið sérstaklega í tengslum við sýninguna, lagið er eftir Hjört Jóhannsson og texti eftir Kristján Hreinsson.
Friðarsýningin stendur til 24. nóvember.
9-13: Menningarhúsin í Kópavogi
Opnar smiðjur:
Bænafánasmiðja í Gerðarsafni
Krakkamælaborð á Bókasafni
Póstkortasmiðja á Náttúrufræðistofu
Hugleiðingar um hamingjuna á Bókasafni
Einnig gefst börnum kostur á að koma með tillögur um hvernig bæta á Mælaborð barna sem þróað hefur verið til þess að fylgjast með lífsgæðum barna í Kópavogi.
9.45: Náttúrufræðistofa Kópavogs
Börn úr 8. bekk í Kópavogi sýninguna Pláneta A á Náttúrufræðistofu Kópavogs ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs, Andra Snæ Magnasyni rithöfundi og Sævari Helga Bragasyni, Stjörnu-Sævari. Í allt haust hefur nemendum í 8. bekk í Kópavogi verið boðið á fyrirlestra og umræður með Sævari Helga og unnið í kjölfarið fjölbreytt verkefni tengd umhverfis- og loftslagsmálum. Með verkefninu er lögð áhersla á að raddir unglinganna heyrist og þeirra skoðanir komist á framfæri.
Sýningin stendur til 27. nóvember.
10.00: Salurinn
200 börn úr 5. bekk í skólum Kópavogs halda málþingið Krakkaveldi þar sem þau bjóða börnum og fullorðnum til fundar við sig og kynna sínar hugmyndir um hvernig Ísland verður þegar þau fá loks að ráða. Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir hefur þróað Krakkaveldi með það að markmiði að valdefla börn og velta upp spurningum um lýðræði og vald barna til að hafa áhrif í samfélaginu.
10.00: Bókasafn Kópavog
Skemmtileg sögustund á 2. hæð bókasafnsins þar sem góður gestur les fyrir leikskólabörn.
10.15: Bókasafn Kópavogs
Dansað fyrir réttindum barna og ungmenna!
Nemendum 8. bekkja er boðið upp í dans hjá Friðriki Agna á jarðhæð bókasafnsins.
12.15: Salurinn
Skólahljómsveit Kópavogs heldur tónleika í Salnum. Skólahljómsveitin hefur í haust tengt tónlist við Barnasáttmálann og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á tónleikunum segja meðlimir A og B sveitar hljómsveitarinnar frá lögunum, hvernig þeir upplifa tónlistina og hvaða skilaboðum þeir vilja koma áleiðis með sínum tónlistarflutningi. Stjórnendur Össur Geirsson og Jóhann Björn Ævarsson.
Tónleikar Skólahljómsveitarinnar eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir og hluti af viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum.
17.00: Smáralind
Sýning á teikningum leikskólabarna í Kópavogi opnar í Smáralind. Verkin á sýningunni eru túlkun barna á hinum ýmsu greinum Barnasáttmálans.
Sýningin í Smáralind stendur til 24. nóvember.
19.30: Félagsmiðstöðin Þeba kl. 19.30:
Deginum lýkur með því að unglingar dansa fyrir réttindum ungmenna í félagsmiðstöðinni Þebu. DJ Dóra Júlía sér um tónlistina.