Vel heppnuð opnunarhátíð í Kópavogi

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri færði Brynju Sveinsdóttur forstöðumanni Náttúrufræðistofu Kópavog…
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri færði Brynju Sveinsdóttur forstöðumanni Náttúrufræðistofu Kópavogs og Lísu Zachrison Valdimarsdóttur forstöðumanni Bókasafns Kópavogs blóm í tilefni dagsins.

Ný miðstöð menningar og vísinda var opnuð í Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu laugardaginn 11. maí að viðstöddu fjölmenni.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, tók miðstöðina formlega í notkun og leiddi gesti inn í nýja sýningu Náttúrufræðistofu, Brot úr ævi jarðar og endurnýjaða barnabókadeild Bókasafns Kópavogs.

Fjöldi gesta var mættur til þess að skoða og njóta innandyra sem utan. Í tilefni dagsins hafði verið slegið upp smíðavelli utandyra fyrir börn og fullorðin. Í bókasafninu voru nemendur úr Snælandsskóla með sögustund og boðið var upp á lista- og vísindasmiðjur. Þá mæltist sýningin Brot úr ævi jarðar afar vel fyrir hjá gestum á öllum aldri.

„Við hér í Kópavogi viljum sjá menningarlífið þróast í takt við nýja tíma og vera brautryðjendur á þeim vettvangi. Við viljum vera þekkt fyrir að þora að fara nýjar leiðir til að miðla menningu, listum og náttúruvísindum. Fyrir ári síðan boðuðum við nýja nálgun í menningarstarfi okkar og einn liður í því var að leggja aukna áherslu á að efla fræðslu og upplifun barna í menningarhúsum okkar. Nýtt upplifunarrými lista, vísinda og bókmennta er svo sannarlega að fanga þær áherslur og afraksturinn er einstakt rými til að fræðast, skapa, lesa og leika. Við settum okkur markmið að opna á afmælisdegi bæjarins 11.maí og ég er mjög stolt að það hafi tekist. Til hamingju með daginn, Kópavogur,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

OpnunarhátíðOpnunarhatid2