Varað við sjósundi vegna viðgerða á dælustöð

Unnið er að því að endurnýja fjórar dælur fráveitukerfisins við Hafnarbraut í Kópavogi og verður því slökkt á dælunum mánudaginn 15. apríl. Ráðgert er að það verði hægt að ræsa nýjar dælur, laugardaginn 20. apríl. Þetta skapar hættu á því að saurgerlamengun í sjó verði yfir viðmiðunarmörkum á tímabilinu. Fólki er því ráðlagt að stunda ekki sjósund eða siglingar frá 15. til 22. apríl í Fossvoginum.
Með nýjum dælum er verið að minnka líkur á mengun en þær sem fyrir eru, eru gamlar og slitnar, og dregið hefur úr afköstum þeirra.
 
Umhverfissvið Kópavogsbæjar hefur komið þessum upplýsingum áleiðis til heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Þessir aðilar hafa látið sjósundsfólk og siglingaklúbba á svæðinu vita.