- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Áætlað er að fjölgað geti um 5.600 íbúðir í Kópavogi á næstu tveimur áratugum á þeim sex svæðum í bænum þar sem fjölgun verður mest. Skipulagsáform og húsnæði í byggingu í bænum eru til kynningar á sýningunni Verk og vit sem hefst í Laugardalshöll í dag.
Þessi fjölgun þýðir fjölgun íbúa um 15.000 um það bil gangi áætlanir eftir, en íbúar í dag eru tæplega 40.000.
Þau hverfi í Kópavogi þar sem gert er ráð fyrir mestri fjölgun eru Kársnes, miðbær Kópavogs, Smárinn, Glaðheimar, Vatnsendahvarf og Vatnsendahlíð.
Tvö síðastnefndu hverfin eru ný. Skipulagning á því fyrrnefnda stendur yfir en þar er gert ráð fyrir 500 íbúðum, lágreistri og vistvænni byggð, með bæði sérbýli og fjölbýli.
Á Kársnesinu eru áætlanir um 1.390 íbúða fjölgun til ársins 2040.
Á miðbæjarsvæðinu og í Auðbrekku er gert ráð fyrir 1.600 íbúða fjölgun. Það er til viðbótar við svonefndan Traðarreit eystri við Digranesveg en framkvæmdir þar hófust í ársbyrjun.
Í Smáranum er gert ráð fyrir fjölgun um 760 íbúðir í fjölbýlishúsum í svæðiskjarnanum við Smárann.
Í Glaðheimum hefur verið skipulagður nýr hverfishluti með 500 íbúðum, bæjargarði og fjölbreyttu verslunar og þjónustuhúsnæði. Byggingarréttur í hverfinu verður auglýstur til úthlutunar á næstunni.
Áður hefur verið greint frá Vatnsendahvarfinu en það stendur þar sem útvarpsmöstur Ríkisútvarpsins voru, við Hvarfahverfi í Kópavogi. Loks má þess geta að það hyllir undir að hægt verði að hefja skipulagsvinnu í Vatnsendahlíð og er stefna að því að sú vinna hefjist á næstu árum. Þar verður skipulagt skólahverfi, það síðasta á bæjarlandi í Kópavogi.
„Það er stórhugur í Kópavogi og við erum hér bæði að vinna með þéttingu byggðar og ný hverfi. Við sjáum að það hefur verið mikil ánægja með nýtt húsnæði sem hefur risið undanfarin ár, í Smáranum, austari hluti Glaðheima og svo á Kársnesinu. Sá fallegi bæjarhluti er að ganga í endurnýjun lífdaga þessi árin og mun halda áfram að þróast á næstu árum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Áform um fjölgun íbúða er að finna í nýsamþykktu Aðalskipulagi Kópavogs sem hefur gildistímann 2019 til 2040.
Markaðsstofa Kópavogs annast framkvæmd sýningarinnar í samvinnu við Kópavogsbæ og byggingaraðila í Kópavogi.