Styrkja rekstur og starfsemi Gerplu

Ármann Kr. Ólafsson og Jón Finnbogason.
Ármann Kr. Ólafsson og Jón Finnbogason.

Kópavogsbær og Íþróttafélagið Gerpla hafa í dag endurnýjað þjónustu- og rekstrarsamninga sína vegna starfsemi félagsins í Versölum í Kópavogi. Samningarnir styrkja rekstur og starfsemi Gerplu en samkvæmt þeim mun íþróttafélagið áfram reka íþróttahúsið í Versölum.

Í þjónustusamningnum er m.a. kveðið á um að Gerpla skuli starfa samkvæmt gæðakröfum ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands). Jafnframt skuldbindur félagið sig til þess að halda úti íþróttaskóla fyrir börn á aldrinum 6 til 9 ára, í samstarfi við grunnskóla bæjarins.


Í rekstrarsamningnum er m.a. kveðið á um rekstur og afnot af íþróttahúsi í íþróttamiðstöðinni Versölum en Gerpla hefur haft afnot af húsinu frá opnun þess árið 2005. Sú aðstaða markaði kaflaskil í starfsemi félagsins enda aðstaðan með eindæmum góð. Iðkendum hefur fjölgað umtalsvert síðan þá og árangurinn hefur ekki látið á sér standa á mótum, bæði hér heima og erlendis.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs: „Ég er ánægður með gott samstarf bæjarins og Gerplu og tel að samningarnir eigi eftir að styrkja rekstrargrundvöll og starfsemi félagsins enn frekar og efla um leið íþróttaiðkun í bænum. Íþróttaaðstaðan í Kópavogi er ein sú besta á landinu öllu og ljóst að hún á stóran þátt í góðum árangri okkar íþróttafólks á liðnum árum. Ég finn líka að Kópavogsbúar eru stoltir af Gerplu.“

Jón Finnbogason, formaður Íþróttafélagsins Gerplu: „Við í Gerplu erum ánægð með það samkomulag sem nú liggur fyrir og erum við sannfærð um að það muni hjálpa til við að bæta þá þjónustu sem við veitum hér í Gerplu. Það er mikill metnaður hjá iðkendum og starfsmönnum félagsins sem endurspeglast í því blómlega íþróttastarfi sem fer fram hér að Versölum alla daga vikunnar.“