- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Sorpa bs. og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hlutu Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, fyrir samræmt flokkunarkerfi úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Teningurinn var afhentur á Degi verkfræðinnar á Hótel Nordica í dag, föstudaginn 28. mars.
„Hlutverk Sorpu er að annast meðhöndlun úrgangs og sinna þannig lögbundinni skyldu sveitarfélaganna sem að fyrirtækinu standa. Mikilvægt umbótaverkefni var að innleiða samræmt flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið fólst í að koma á sérsöfnun og flokkun heimila á úrgangi sem er lykilþáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfis. Í upphafi verkefnisins voru úrgangsflokkarnir fjórir en við lok þess árið 2024 flokka heimili á höfuðborgarsvæðinu úrgang í átta flokka,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
„Með sérsöfnun á matarleifum var stigið stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Mælingar á magni matarleifa í blönduðum úrgangi og hreinleiki matarleifa sýna að algjör hugarfarsbreyting hefur orðið hjá íbúum. Með skýrum skilaboðum náðist að breyta viðhorfum hvað varðar hlutverk einstaklinga og heimila í því að draga úr umhverfisáhrifum úrgangs.“
Árangur verkefnisins fór fram úr bæði markmiðum og björtustu vonum hvort sem litið er til hugarfarsbreytingar, breyttrar hegðunar eða jákvæðra áhrifa á bæði heildarmagn úrgangs frá heimilum, magni flokkaðs úrgangs, endurvinnsluhlutfalls, hreinleika eða skilvirkni flokkunar.
„Innleiðing hringrásarhagkerfis er ein öflugasta aðgerð gegn loftslagsbreytingum. Það hefur mikla þýðingu í að bæta hagkerfið, leiða það í átt að sjálfbærni og betri nýtingu á auðlindum,“ segir umsögn dómnefndar. „Góðan árangur verkefnisins má ekki síst þakka stýrihópi sem undirbjó verkefnið og var skipaður tæknimenntuðu fólki sem starfar hjá Sorpu bs og sveitarfélögunum sem að fyrirtækinu standa."