Samræmdu prófin í Kópavogi

Hörðuvallaskóli
Hörðuvallaskóli

Grunnskólar í Kópavogi voru yfir landsmeðaltali í öllum greinum í samræmdu prófunum sem þreytt voru síðastliðið haust. Þetta kemur fram í skýrslu um samræmd könnunarpróf 2014. Prófað var í þremur greinum í 10. bekk, íslensku, stærðfræði og ensku, og tveimur í sjöunda og fjórða bekk, íslensku og stærðfræði. Í öllum þessum greinum er Kópavogur yfir landsmeðaltalinu, sem er 30 á normaldreifðum kvarða. 

Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs Kópavogsbæjar segir góða niðurstöðu bæjarins vera afrakstur margra samverkandi þátta. „Það eru góðir stjórnendur og kennarar í skólunum, samstarfið milli menntasviðs og menntastofnana er til fyrirmyndar og skólarnir njóta faglegs sjálfstæðis.“

Meðaltal bæjarins var 31,6 þegar öll próf eru samantekin, en hæst var meðaltalið í 7. Bekk í stærðfræðin eða 32,2 en lægst í fjórða bekk í stærðfræði eða 31,1.

Nemendur í Kópavogur sköruðu jafnframt fram úr í mætingum í prófin í öllum árgöngum. Í 10 bekk voru fjarvistir fátíðar eða einungis á bilinu þrjú til fjögur prósent.

Nánari upplýsingar um niðurstöður úr samræmdu prófunum á landsvísu er að finna á vef Námsmatsstofnunar en niðurstöður fyrir Kópavog er að finna hér.