Salurinn í sóknarfæri

Á myndinni eru frá vinstri: Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála, Védís Hervör Árnadótti…
Á myndinni eru frá vinstri: Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála, Védís Hervör Árnadóttir, tónlistarkona og formaður starfshópsins, Davíð Þór Jónsson, tónlistarmaður, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Axel Ingi Axelsson forstöðumaður Salarins.

Starfsemi Salarins er best komin í höndum Kópavogbæjar, þar sem tónlistarmenningarlegt hlutverk hans er samofið öðru menningarstarfi bæjarins ásamt tónlistarkennslu og barnastarfi. Lyfta þarf sérstöðu Salarins sem tónleikahúss, skapa samkeppnisforskot á tónleikamarkaði og endurhugsa starfsemina með ný sóknarfæri í huga án þess að raska því mikilvæga hlutverki sem Salurinn sinnir.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu um málefni Salarins sem kynnt var í vikunni. Skýrslan var unnin af starfshópi sem í sátu Védís Hervör Árnadóttir, tónlistarkona, sem var formaður hópsins, Halldór Friðrik Þorsteinsson, heimspekingur og Davíð Þór Jónsson, tónlistamaður. Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi var starfsmaður hópsins.

„Skýrsla starfshópsins um málefni Salarins er einstök samantekt og mikilvægt stöðumat á starfsemi og rekstri Salarins sem brýn þörf var að ráðast í. Salurinn er einstakt tónleikahús sem er brýnt að hlúa vel að og leyfa að þróast og eflast,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Mörg sóknarfæri eru í Salnum að því er fram kemur í úttektinni og má þar nefna nýtingu á forsalnum og tónleikasalnum til ráðstefnu og fundarhalda, endurmörkun, straumlínulögun bókunarferla og kaup á nýjum konsertflygli er meðal þess sem nefnt er í úttektinni.

„Menningarhús á borð við Salinn hefur staðið þétt með listamönnum í gegnum tíðina og mun gera það áfram. Skýrslan varpar ljósi á mikilvægi Salarins og er mjög gott veganesti fyrir næstu ár. Starfsemin heldur áfram að þróast og sem dæmi um það eru margar spennandi tónleikaraðir sem hefja göngu sína í vetur,“ segir Axel Ingi Árnason nýráðinn forstöðumaður Salarins.

Talsverðar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað innan menningarmálaflokksins í Kópavogi frá því á síðasta ári. Sumar hafa nú þegar litið dagsins ljós með eftirtektarverðum árangri eins og ný Náttúrufræðistofa og barnadeild bókasafnsins þar sem aðsókn hefur fimmfaldast frá opnun í maí síðastliðnum. Skýrsla starfshóps um málefni Salarins er liður í heildarúttekt á menningarmálum Kópavogsbæjar. Hana má finna á heimasíðu Kópavogsbæjar.

Skýrsla um málefni Salarins