Nýútskrifaðir leikskólakennarar í Kópavogi

Glæsilegur hópur nýútskrifaðra ásamt starfsfólki leikskóladeildar og sviðsstjóra menntasviðs.
Glæsilegur hópur nýútskrifaðra ásamt starfsfólki leikskóladeildar og sviðsstjóra menntasviðs.

Leikskóladeild fagnaði með nýútskrifuðu leikskólakennurunum og þeirra leikskólastjórum á dögunum. Að þessu sinni voru það 7 leikskólakennarar sem útskrifuðust þann 15. júní síðastliðinn frá Háskóla Íslands. Allir leikskólakennararnir hafa stundað nám í leikskólakennarafræðum samhliða vinnu hjá Kópavogsbæ og hafa hlotið námsstyrki.

 

 

Góður árangur hefur verið af stefnu Kópavogsbæjar um námsstyrki og hefur hlutfall leikskólakennara aukist til muna. Frá árinu 2014 hafa á annað hundrað lokið námi með námsstyrkjum frá Kópavogsbæ og hafið störf á leikskólum Kópavogsbæjar. Loks má þess geta að Kópavogsbær styrkir ófaglærða leiðbeinendur til þess að sækja sér menntun leikskólaliða, sem er starfstengt nám á framhaldsskólastigi.

Eftir þriggja mánaða starf í leikskóla í Kópavogi er unnt að óska eftir stuðningi leikskólastjóra til að sækja um nám í leikskólakennarafræðum. Sótt er um grunnnám í leikskólakennarafræði eða meistaragráðu ofan á aðra háskólagráðu. Styrkurinn felst í því að starfsfólk getur verið fjarri vinnu vegna skólasóknar eða vettvangsnáms í allt að 35 daga á skólaárinu. Einnig er styrkt nám leikskólaliða, með greiðslu skólagjalda og námsgagna auk veglegrar eingreiðslu til hvatningar við lok náms ásamt því að veita svigrúm á vinnutíma vegna vettvangsnáms.