Metár í aðsókn að Héraðsskjalasafni

Nýliðið ár 2013 var metár í aðsókn að Héraðsskjalasafni Kópavogs. Heimsóknum hefur fjölgað hratt síðan safnið flutti í nýtt húsnæði vorið 2012. Rúmlega 100% aukning varð milli 2011 og 2012, og 40% aukning varð á milli 2012 og 2013. Til gamans má geta þess að tífalt fleiri sóttu safnið heim 2013 en árið 2009 og ennfremur að á milli 2011, síðasta ársins fyrir flutninga og nýliðins árs jókst aðsóknin um rúmlega 180%. Því má með sanni segja að skjalasafnið sé að springa út og dafni vel í nýjum húsakynnum.
 

Fjöldi afhendinga hefur að sama skapi aldrei verið meiri en 2013 og hefur vaxið jafnt og þétt á hverju ári og merkja má stökk í fjölda afhendinga eftir að safnið flutti í gamla pósthúsið á Digranesveginum. 

Árið 2013 var viðburðaríkt í starfi Héraðsskjalasafns Kópavogs. Í upphafi árs stóð enn uppi jólasýning safnsins um Kópavogskirkju, en 16. desember 2012 var 50 ára vígsluafmæli hennar. 

Safnanótt var haldin á höfuðborgarsvæðinu 8. febrúar og var aðsókn framar vonum. Þar sem þá var nýlokið átaki Félags héraðsskjalavarða og Íþróttasambands Íslands í söfnun skjala íþróttafélaga voru skjöl tengd íþróttastarfsemi í Kópavogi til sýnis ásamt því að félagar úr Tafldeild Breiðabliks buðu gestum að spreyta sig í skáklistinni. 

Um vorið kom út annað smárit safnsins og Sögufélags Kópavogs, Kampar í Kópavogi, eftir Friðþór Eydal. Þar segir frá herskálabyggðum bandamanna í landi Kópavogs í seinni heimsstyrjöld. 

Á Kópavogsdögum stóð safnið ásamt Sögufélaginu fyrir fræðslugöngu um miðbæjarsvæðið og um sumarið, 20. júlí, var farin vel heppnuð rútuferð um austurlönd Kópavogs, Lækjarbotna og Sandskeið. 

Í september var safnið gestgjafi á árlegri ráðstefnu Félags héraðsskjalavarða á Íslandi þar sem starfsmenn skjalasafna af öllu landinu komu saman. Fjölbreytt viðfangsefni skjalasafna voru til umræðu á ráðstefnunni, allt frá skráningu og aðgengisstýringu skjala, netútgáfu og samstarfsverkefni safnanna svo eitthvað sé nefnt.

Um haustið kom út þriðja smárit Sögufélagsins og skjalasafnsins, Vatnsendi, úr heiðarbýli í þétta byggð eftir dr. Þorkel Jóhannesson (1929-2013). Þorkell þekkti vel til sögu Vatnsenda, hann var þar í sveit í fjölda sumra og hafði aflað sér skjallegra heimilda um svæðið úr mörgum áttum. Í ritinu segir frá því hvernig jörðin varð fyrir skerðingu vegna virkjanaframkvæmda, ein af þeim fyrstu hér á landi, hvernig hún var einnig ein sú fyrsta sem lagði stóran hluta lands síns undir sumarbústaðabyggð, áhrifum af nábýlinu við útvarpsstöðina og því hvernig hún hefur á undraskömmum tíma breyst úr sveit í borg. Þorkell lést 15. desember síðastliðinn. 

Í nóvember sýndi safnið í samstarfi við Sögufélagið nokkur kvikmyndabrot úr Kópavogi sem varðveitt eru í Kvikmyndasafni Íslands. Það elsta var frá 1934 og sýnir dráp á hvalavöðu í botni Fossvogs. Þá voru nokkur brot frá 5. áratugnum sýnd sem og mynd tekin í þyrluflugi yfir Kópavogsháls um 1965. Kvikmyndir af þessum toga eru ómetanlegar heimildir um sögu bæjarins og uppbyggingu hans.

2. desember bað MS-félagið um leiðsögn um sögu Kópavogs í rútuferð um bæinn. Það er órjúfanlegur hluti starfs skjalasafna að efla þekkingu á og kynna sögu sinna umdæma, enda er það hlutverk þeirra bundið í reglugerð. Náið og gott samstarf við Sögufélagið stuðlar einnig að því. Heimsóknir grunnskólabarna í skjalasafnið hafa verið vaxandi þáttur í starfsemi þess og fá börnin fræðslu í því hvert hlutverk skjalasafna er og þau fá að kynnast sögu Kópavogs og hvernig hún er varðveitt í skjölum.

Hér hefur verið stiklað á stóru um nokkra þætti í starfsemi safnsins á árinu, sem hefur að sönnu verið viðburðaríkt. Skjalaafhendingar hafa aldrei verið fleiri eins og áður var nefnt, þar er um að ræða bæði skjöl stofnanna og embætta Kópavogsbæjar en einnig, og ekki síður mikilvægar, eru afhendingar einkaskjalasafna einstaklinga, félaga og fyrirtækja sem eru órjúfanlegur hluti sögu bæjarfélagsins. Kópavogsbúar mega endilega hafa skjalasafnið sitt í huga ef í þeirra fórum eru ljósmyndir, bréf, dagbækur eða heimilsbókhald sem sagt getur sögu daglegs lífs í Kópavogi á liðnum árum.

Starfsmenn safnsins eru afar þakklátir fyrir hve vel Kópavogsbúar hafa tekið skjalasafninu sínu á nýjum stað. Safnið er miðstöð heimilda um sögu Kópavogs og Kópavogsbúar, frumbýlingar, afkomendur þeirra sem og þeir sem eiga skemmri búsetusögu í bænum eru velkomnir á safnið, bæði til að kynnast sögu bæjarins sem og að tryggja varðveislu sinna skjala svo saga Kópavogs geymist í sem fjölbreyttastri mynd.