- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands fer að hluta til fram í Menningarhúsum Kópavogs næstu árin samkvæmt samkomulagi sem undirritað hefur verið milli LHÍ og Menningarhúsanna. Jafnframt var innsiglaður samtarfsvilji um að taka upp samstarf á sviði listkennslu LHÍ og menningarfræðslu Menningarhúsanna. Með því er lýst yfir vilja til að breikka samstarfið enn frekar.
Útskriftartónleikar LHÍ fara fram í Salnum í apríl og maí og útskriftarsýning meistaranema í myndlist og hönnun fer fram í Gerðarsafni í maí. Þess má geta að útskriftarsýningin hefur verið í Gerðarsafni frá upphafi, þetta er því fjórði útskriftarárgangurinn sem sýnir í safninu í vor.
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ „Þegar okkur er boðið af heilindum og höfðingsskap myndarleg og fagleg aðstaða heils bæjarfélags til að vinna með – um stund í það minnsta – þá upplifum við það sem meira en gestrisni. Við upplifum það sem staðfestingu á vægi þess sem við höfum fram að færa, sem viðurkenningu á gæðum skólastarfsins og sem uppljómun yfir því sem framtíðin getur borið í skauti sér ef að henni er hlúð.“
Arna Schram, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi. „Samstarf Menningarhúsanna og LHÍ styður vel við þá sýn sem við höfum hjá Menningarhúsunum og þá stefnu sem við vinnum eftir. Samstarf við Listaháskóla Íslands hefur jákvæð áhrif á starfsemi Menningarhúsanna og smitar út frá sér í aðra kima menningarlífs bæjarins. Það er einkar ánægjulegt að nú mun samstarfið verða enn breiðara og ná meðal annars inn í menningarfræðsluna okkar.”
Sýning meistaranema í hönnun og myndlist í Gerðarsafni verður opnuð 6. maí og stendur yfir til 21. maí. Útskriftartónleikar tónlistardeildar LHÍ í Salnum spanna frá 19. apríl til 24. maí. Ókeypis er inn á alla viðburði.
Einnig verða veitt verðlaun úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen 24. maí í Salnum, en Halldór Hansen arfleiddi skólann af öllum eigum sínum. Verðlaunin eru veitt til framúrskarandi nemenda við Listaháskóla Íslands.