Ljóðstafur Jóns úr Vör afhentur

Frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Henrik Hermannsson sigurvegari í ljóðakeppn…
Frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Henrik Hermannsson sigurvegari í ljóðakeppni grunnskólanna 2018, Ásdís Óladóttir í dómnefnd, Sindri Freysson handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör 2018, Anton Helgi Jónsson formaður dómnefndar, Karen E. Halldórsdóttir formaður Lista- og menningarráðs og Bjarni Bjarnason sem einnig er í dómefnd ljóðakeppnanna.

Sindri Freysson fékk afhentan Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Kínversk stúlka les uppi á jökli á Ljóðahátíð Kópavogs 21. janúar.

Þetta er í sautjánda sinn sem Lista- og menningarráð Kópavogs afhendir Ljóðstaf Jóns úr Vör. Viðurkenningin veitt við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi af Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Karen E. Halldórsdóttur formanni Lista- og menningarráðs.

Alls bárust 278 ljóð í keppnina að þessu sinni. Í öðru sæti var Hrafnhildur Þórhallsdóttir með ljóð sitt Elegía en Valgerður Benediktsdóttir hlaut þriðja sætið fyrir ljóðið Íshvarf. Þá fengu átta ljóð viðurkenningar.

Einnig voru tilkynnt úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi. Henrik Hermannsson hlaut þar fyrstu verðlaun fyrir ljóðið Myrkrið. Höfundur er nemandi í 7. bekk í Hörðuvallaskóla. Í öðru sæti var ljóðið Frelsi eftir Eyrúnu Flosadóttur. Hún er nemandi í 9. MSJ í Kársnesskóla. Ljóðið Allt eða ekkert eftir Söndru Diljá Kristinsdóttur var í þriðja sæti en Sandra er í 8. bekk Salaskóla. Vinningsljóðum grunnskólanema verður dreift um bæinn á veggspjöldum og bókamerkjum.

Nú stendur yfir Ljóðahátíð í Kópavogsbæ en bærinn heldur hátíðina og ljóðasamkeppnina til þess að fagna ljóðlistinni og hvetja bæði börn og fullorðna til þess að virkja sköpunarkraftinn í rituðu máli.

Nánar um Ljóðstafinn:

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Efnt hefur verið til ljóðasamkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör frá árinu 2002 og eru úrslit keppninnar tilkynnt á fæðingardegi skáldsins. Handhafi Ljóðstafsins fær farandgrip til varðveislu í eitt ár, verðlaunagrip til eignar og 300.000 króna peningaverðlaun. 200.000 kr. eru í verðlaun fyrir annað sætið og 100.000 fyrir það þriðja.

Þá hlutu átta ljóð viðurkenningar dómnefndar:

Halla Oddný Magnúsdóttirhlýtur viðurkenningu fyrir ljóðið Ástaljóð frá Alexandríu

Sindri Freysson hlýtur viðurkenningar fyrir ljóðin Ekkert að óttast og Vikumenn

Hallgrímur Helgason hlýtur viðurkenningar fyrir ljóðin Ég og hún og Portúgölsk pera Eyþór Gylfason hlýtur viðurkenningu fyrir ljóðið Hvítt suð

Pedro Gunnlaugur Garcia hlýtur viðurkenningu fyrir ljóðið Leikbrúður

Margrét Hlín Sveinsdóttir hlýtur viðurkenningu fyrir ljóðið Postulínshundurinn

Steinunn Lilja Emilsdóttir hlýtur viðurkenningu fyrir ljóðið Vitleysa

Ásgeir H Ingólfsson hlýtur viðurkenningu fyrir ljóðið Þeir skjóta þig alltaf í bakið

Dómnefnd

Í dómnefnd sátu skáldin Anton Helgi Jónsson, formaður, Ásdís Óladóttir og Bjarni Bjarnason.

Rökstuðningur nefndarinnar fyrir vali sigurljóðsins er eftirfarandi:

Sindri Freysson hlýtur ljóðsstaf Jóns úr Vör árið 2018 fyrir ljóðið Kínversk stúlka les uppi á jökli. Í ljóðinu birtast skýrar myndir af óvenjulegum aðstæðum sem vöktu strax athygli dómnefndarfólks. Ljóðið kallar fram myndir af ólíkum heimum, andstæðum; borgarumhverfi, brautarpöllum og hraða er telft á móti kyrrstöðu sem ríkir á óskilgreindum jökli þar sem rúta situr föst. Ljóðið sýnir okkur sofandi farþega sem geta verið erlendir ferðamenn en aftast situr kínversk stúlka og les um lestargöng sem opnast og lokast. Þessar áleitnu myndir gefa færi á ýmsum túlkunarmöguleikum, minna á mátt ljóðsins, bókarinnar, lesturs og hugarflugs. Þetta er ljóð um ferðalag okkar allra, um lífið og dauðann en líka um möguleikana og kallast á við orð listaskálsins góða sem þakkaði fyrir það að geta setið á sama stað og verið samt að ferðast. Ef til vill má líka líta á ljóðið sem táknmynd fyrir samtíma okkar hér á Íslandi, rútan er föst á jökli og enginn veit hvað verður um farþegana; eina leiðin burt úr ógöngunum virðist vera lestur, skáldskapur.

Jón úr Vör

Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000.

Fyrrum handhafar Ljóðstafsins

Ásta Fanney Sigurðardóttir, Dagur Hjartarson, Anton Helgi Jónsson, Magnús Sigurðsson, Hallfríður J. Ragnheiðardóttir, Steinunn Helgadóttir, Gerður Kristný, Anton Helgi Jónsson, Jónína Leósdóttir, Guðrún Hannesdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Linda Vilhjálmsdóttir,  Hjörtur Marteinsson og Hjörtur Pálsson.

Verðlaunaljóð 2018