Ljóðasamkeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör

Jón úr Vör.
Jón úr Vör.

Auglýst er eftir ljóðum í ljóðasamkeppni um Ljóðastaf Jóns úr Vör og er skilafrestur til og með 5. nóvember.

Árið 2001 var stofnað til ljóðasamkeppni á vegum lista- og menningarráðs Kópavogs og Ritlistarhóps Kópavogs, sem hlaut nafnið Ljóðstafur Jóns úr Vör, í minningu skáldsins.

Ljóðstafur Jóns úr Vör er veittur að lokinni samkeppni þar sem öllum er frjálst að senda inn frumsamin ljóð á íslensku, og undir dulnefni. Hér takast því á reyndari skáld og þau yngri í jöfnum leik.

Ljóði skal skilað í einu eintaki sem merkt er dulnefni. Með eintakinu skal fylgja eitt lokað umslag merkt dulnefninu sem inniheldur upplýsingar um nafn, símanúmer og netfang skáldsins. Einungis umslög sem tilheyra vinnings- og viðurkenningarljóðum verða opnuð en öllum öðrum gögnum eytt.

Utanáskrift umslags er:

Ljóðstafur Jóns úr Vör
Menning í Kópavogi
Digranesvegi 1

200 Kópavogi.

Veitt eru peningaverðlaun og verðlaunaskáldið fær til varðveislu í eitt ár silfurskreyttan göngustaf, sem var í eigu Jóns úr Vör. Á stafinn er festur skjöldur með nafni verðlaunahafa ásamt ártali. Verðlaunin eru veitt við hátíðlega athöfn á fæðingardegi Jóns úr Vör þann 21. janúar ár hvert.

SKILAFRESTUR Í KEPPNINA ER TIL OG MEÐ 5. NÓVEMBER ÁRLEGA.