- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópavogsbær hefur fengið vottun um að bærinn uppfylli lífskjara- og þjónustustaðal World Council on City Data (WCCD).
Í staðlinum eru 100 vísar, sem staðallinn skilgreinir hvernig beri að mæla. Vísarnir segja til um félagslegan, efnahagslegan og umhverfislegan árangur sveitarfélags. Með því að uppfylla staðalinn er Kópavogur orðið hluti af hópi sveitarfélaga á alþjóðavísu sem öll mæla á sama hátt þessa 100 vísa og eru því samanburðarhæfir árangursmælar. Kópavogur fékk platínuvottun fyrir að skila inn 97 vísum.
Kópavogsbær mun nýta mælingar úr staðlinum til að fylgjast með stöðu sveitarfélagsins á alþjóðavísu auk þess sem staðallinn nýtist til þess að fylgjast með stöðu mála á milli ára. Mælingar úr staðlinum munu einnig nýtast til að mæla framgang í innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi.
„Hjá Kópavogsbæ höfum við undanfarin ár unnið markvisst að því að bæta mælingar á ýmsum þáttum í starfi sveitarfélagsins. Það nýtist okkur til að fylgjast betur með árangri af settum stefnum og markmiðum og gerir rekstur sveitarfélagsins betri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Vísarnir snerta á mörgum þáttum og voru ýmsar áskoranir fyrir sveitarfélagið að nálgast gögn og upplýsingar. Ríkt samstarf þurfti við ríkisstofnanir, fyrirtæki og á milli sviða Kópavogsbæjar við innleiðingu og mælingu vísanna. Meðal stofnana, byggðasamlaga og fyrirtækja sem koma að verkefninu með gagnasöfnun eða upplýsingagjöf má nefna Velferðarráðuneytið, Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Vinnumálastofnun, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Þjóðskrá Íslands, Hagstofu Íslands, Embætti landlæknis, Landspítalann, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Strætó, Sorpu, Heilsugæslustöðvar Kópavogs, Gallup og áfram mætti telja.
WCCD er stofnun sem heldur utan um samanburðarhæfingar mælingar sveitarfélaga á alþjóðavísu. WCCD hefur þróað staðalinn sem ber númerið ISO 37120. Hann er fyrsti alþjóðlegi staðallinn um gögn sem tengjast sveitarfélögum og heldur utan um skrá sveitarfélaga sem fengið hafa vottun á ISO 37120. Á vefsíðu tileinkaðri staðlinum, má nálgast aðgengilegar upplýsingar um vottuð sveitarfélög og stöðu árangursmælinga þeirra.
Dr. Patricia L. McCarney, framkvæmdastjóri WCCD, segir framúrskarandi að skrá 97 af 100 vísum og bendir á að óháðir vottunaraðilar hafi lofað vinnu bæjarins, nákvæmni og gagnaöflun: „Nálgun Kópavogsbæjar ætti að vera borgum um heim allan fyrirmynd að mati vottunaraðila,“ segir McCarney.
Þess má geta að Kópavogsbær er einnig gæðavottað sveitarfélag (ISO 9001) og hefur skoðað félagslegar framfarir í bæjarfélaginu með aðferðafræði vísitölu félagslegra framfara, (e. Social Progress Index, SPI). Þá er Kópavogsbær í samvinnu við OECD um gerð mælikvarða sem nýta má við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti síðastliðið haust að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í yfirstefnu bæjarins.