- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Boðið verður upp á vefútsendingu frá Menningarhúsunum í Kópavogi klukkan 13.00 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga út apríl frá og með mánudeginum 23. mars. Viðburðarröðin hefur fengið heitið Kúltúr klukkan 13 og meðal þeirra sem koma fram eru Sævar Helgi Bragason, Andri Snær Magnason, Gerður Kristný, Jógvan, Matti Matt, Vignir Snær, Sigurbjörn Bernharðsson, Halla Oddný, Ragna Fróðadóttir, Þorgrímur Þráinsson og fleiri.
„Við starfsfólk Menningarhúsanna höfum oft rætt þá hugmynd að streyma viðburðum en kringumstæður hreinlega hrintu okkur af stað og við erum öll mjög spennt að sjá hvert þessi nýjung leiðir okkur í framtíðinni. Við vonumst til þess að viðburðirnir stytti þeim fjölmörgu stundir sem sitja heima í sóttkví eða eru heimavið af öðrum ástæðum. Þá er einnig mikilvægt að mæta listamönnum, en við erum ekkert án þeirra og viljum svo sannarlega styðja við bakið á þeim, á þessum óvissu tímum.“ segir Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.
Fimm menningarhús eru í Kópavogi; Bókasafnið, Gerðarsafn, Salurinn, Náttúrufræðistofa og Héraðsskjalasafn. Fastir sameiginlegir viðburðir eru skipulagðir í húsunum allt árið sem eru gestum að kostnaðarlausu, til að mynda Menning á miðvikudögum, Fjölskyldustundir á laugardögum og foreldramorgnar á fimmtudögum. Auk þess eru Menningarhúsin sjálf með reglubundna viðburði, en alls þarf að fresta eða fella niður 33 viðburði vegna samkomubannsins sem nú ríkir.
„Það er mikill metnaður í Menningarhúsunum í Kópavogi og mjög ánægjulegt að geta brugðist við þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi í samfélaginu með viðburðum sem allir geta notið, hvar sem þeir eru staddir,“ segir Soffía.
Viðburðirnir verða sendir út á Facebook síðu Menningarhúsanna í Kópavogi.