- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Ófaglærðir starfsmenn leikskóla í Kópavogi hækka um 16.000 krónur í launum á mánuði frá og með 1. janúar næstkomandi. Sama á við um frístundaleiðbeinendur í dægradvöl grunnskólanna í Kópavogi. Hækkunin er hluti af viðbrögðum Kópavogsbæjar við ástandi á vinnumarkaði í haust, sem hefur meðal annars birst í því að erfiðlega hefur gengið að ráða fólk til starfa í leikskóla og dægradvalir. Hækkunin greiðist í samræmi við starfshlutfall.
Alls verður 150 milljónum varið í sértækar aðgerðir í leikskólum Kópavogs á næsta ári. Vinnuteymi menntasviðs og leikskóla Kópavogs hefur unnið að tillögum í málefnum leikskóla síðan vinna við fjárhagsáætlun hófst í september.
Veruleg aukning verður á undirbúningstímum í leikskólum, þeim fjölgar úr níu tímum í tólf á viku á hverja deild. Í undirbúningstíma gefst starfsmönnum svigrúm til að undirbúa og skipuleggja faglegt starf á deildum, þjálfun nýrra starfsmanna og samstarf við foreldra. Tilgangurinn með því að fjölga tímunum er því að draga úr álagi og styrkja skipulag á faglegu starfi í leikskólum.
Kópavogsbær leggur mikinn metnað í leikskólastarf í bænum. Í leikskólum bæjarins eru fjölmörg verkefni í gangi eða verður hrint í framkvæmd á næstunni sem efla leikskóla bæjarins enn frekar.
Lögð verður áhersla á að bæta enn frekar aðstöðu og aðbúnað starfsmanna og barna á leikskólum. Húsgögn, tölvubúnaður og vinnuaðstaða verður endurnýjuð eftir þörfum. Í þessum framkvæmdum verður lögð sérstök áhersla á að bæta hljóðvist. Unnið verður að heilsueflingu og vellíðan barna og starfsmanna í anda lýðheilsustefnu Kópavogsbæjar og taka leikskólarnir þátt í fjölmörgum verkefnum með það að markmiði.
Þá verður áfram unnið markvisst að því að fjölga fagmenntuðum leikskólakennurum hjá Kópavogsbæ. Starfsfólki leikskóla býðst að sækja sér nám í leikskólakennarafræðum á vinnutíma. Styrkirnir eru í boði bæði fyrir ófaglærða starfsmenn, starfsmenn með aðra háskólamenntun en leikskólakennarafræði svo og leikskólakennara sem vilja bæta við sig framhaldsnámi.
Kópavogur var fyrst sveitarfélaga til að taka upp slíka styrki og fékk viðurkenninguna Orðsporið fyrir það frumkvæði árið 2015. Þess má geta að 26 starfsmenn eru í námi núna. Þá býðst leikskólakennurum að taka allt að 9 mánaða námsleyfi á launum.
Tillögurnar eru hluti af fjárhagsáætlun Kópavogs 2018 sem tekin er til síðari umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag.