- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Frammistaða Kópavogsbæjar er vel yfir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, hvað varðar stöðu innleiðingar margra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem gefin er út af OECD í tilefni af þátttöku Kópavogsbæjar í alþjóðlegu verkefni OECD um innleiðingu á Heimsmarkmiðunum og þróun mælikvarða sem tengjast innleiðingunni.
Kópavogur hefur komið sér upp gagnasafni sem samanstendur af mælaborðum og árangursmælikvörðum sem munu nýtast við stefnumarkandi ákvarðanatöku og ráðstöfun fjármuna. Þannig er innleiðing Kópavogs á Heimsmarkmiðunum gagnadrifin, eins og bent er á í skýrslu OECD.
Ein mikilvægasta ráðlegging OECD til Kópavogsbæjar í innleiðingunni var nauðsyn þess að virkja hagsmunaaðila við innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Með það að leiðarljósi voru rafrænar samráðsgáttir opnaðar fyrir starfsfólk og íbúa auk þess sem stór hluti starfsfólks Kópavogsbæjar fór í kortlagningarvinnu með Heimsmarkmiðin og sín daglegu störf.
Þá hefur Markaðsstofa Kópavogs undirbúið verkefni sem virkjar fyrirtæki í Kópavogi til að innleiða Heimsmarkmiðin í starfsemi sína.
Heimsmarkmiðin eru hluti af heildarstefnu bæjarins en markmið hennar er að tryggja lífsgæði íbúa Kópavogsbæjar og taka um leið þátt í átaki þjóða heims um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Kjörnir fulltrúar, starfsfólk og íbúar hafa komið að innleiðingunni og hafa mörg verkefni sem tengjast Heimsmarkmiðunum litið dagsins ljós.
Nefna má að Skólahljómsveit Kópavogs hélt sérstaka tónleika þar sem þemað var Heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Salaskóli innleiddi Heimsmarkmiðin í skólanámsskrá sína árið 2019 en leik- og grunnskólar hafa verið í fararbroddi með því að kynna Heimsmarkmiðin fyrir nemendum sínum og flétta þau inn í sitt starf. Þá hafa Menningarhúsin í Kópavogi haft frumkvæði að alþjóðlegu samstarfsverkefni, Vatnsdropanum, þar sem meginstefið er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiðanna við sígild skáldverk norrænna barnabókahöfundar.
Loks hafa Heimsmarkmiðin verið höfð í fyrirrúmi í endurskoðun Aðalskipulags Kópavogs 2019-2031+.
Auk Kópavogsbæjar tóku þátt í verkefni OECD: Flanders svæðið í Belgíu, Viken svæðið í Noregi, Moskva í Rússlandi , Kitayushu borg í Japan, Córdoba svæðið í Argentínu, Bonn í Þýskalandi, Parana svæðið í Brasilíu og Suðursvæði Danmerkur.
Útgáfa skýrslu OECD markar lok alþjóðlega verkefnisins. Hún verður kynnt á rafrænum fundi í dag og við sama tækifæri verður innleiðingu fyrirtækja í Kópavogi á Heimsmarkmiðunum hleypt af stokkunum.