Hlýtur Ljóðstaf Jóns úr Vör

Frá afhendingu Ljóðstafs Jóns úr Vör. Frá vinstri eru: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Fr…
Frá afhendingu Ljóðstafs Jóns úr Vör. Frá vinstri eru: Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Fríða Ísberg, Áslaug Jónsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Karen E. Halldórsdóttir, Anton Helgi Jónsson.

Úrslit sextándu samkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör voru tilkynnt við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Handhafi Ljóðstafsins árið 2017 er ljóðskáldið Ásta Fanney Sigurðardóttir (f. 1987) fyrir ljóðið Silkileið nr. 17. Í öðru sæti var Áslaug Jónsdóttir (f. 1963) og í þriðja sæti Fríða Ísberg (f. 1992). Það var hátíðleg stemning á afhendingunni, enda eru í dag 100 ár frá fæðingu Jóns úr Vör.

Við sama tækifæri voru afhent verðlaun og viðurkenningar í Ljóðasamkeppni Grunnskóla Kópavogs. Nemendur úr Kársnesskóla voru þar hlutskarpastir en Rebekka Rún Oddgeirsdóttir lenti í fyrsta sæti og Ásta Hauksdóttir í öðru sæti. Benedikt Árni Björnsson úr Salaskóla lenti í þriðja sæti, en öll eru þau í tíunda bekk. Átta önnur skáld á aldrinum 11-16 ára fengu viðurkenningar í keppninni.

 

Í dómnefnd sátu skáldin Anton Helgi Jónsson, formaður, Ásdís Óladóttir og Bjarni Bjarnason. Hátt í þrjú hundruð ljóð frá skáldum af öllu landinu bárust í keppnina sem lista- og menningarráð Kópavogs stendur fyrir.

Úr umsögn dómnefndar:

Umbreytingar einkenna verðlaunaljóðið; það kallar fram í huganum myndir af nánd og nálægð en um leið af fjarska og fjarlægð. Ljóðið virðist fjalla um samskipti tveggja einstaklinga en um leið tengir það saman gamla og nýja tíma og ólíka menningarheima. Það er ró og æðruleysi í rödd þeirrar sem talar í ljóðinu og samt er engu líkara en úr orðunum verði til kvikmynd með hröðum klippingum. Það er farið hratt milli sviða frá snjó og vetri og þröngu sjónarhorni á plöntu í krukku og þaðan yfir í stærri heim með vísunum til tenginga við Austurlönd fjær og eyðimerkur í Miðausturlöndum uns snúið er aftur til einangraðar sveitar og veturs á Íslandi. Verðlaunaljóð er gott dæmi um sköpunarmáttinn sem býr í málinu og skáldskapnum og sýnir vel hvað eitt lítið ljóð getur rúmað stóran heim og opnað margar leiðir til túlkunar.

Þessi hlutu sérstaka viðurkenningu í samkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör: Elías Snæland Jónsson, Áslaug Jónsdóttir, Þuríður Elfa Jónsdóttir, Margrét Lóa Jónsdóttir, Margrét Þ. Jóelsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Dagur Hjartarson.

Sérstakar viðurkenningar í Ljóðasamkeppni grunnskólanna hlutu: Aðalsteinn Örn Ragnarsson, Birkir Örn Sigurðsson, Tómas Bjartur Björnsson, Arnar Ágúst Kristjánsson, Birna Sigríður Haraldsdóttir, Sóley Erla Jónsdóttir, Sigþór Atli Sverrisson, Eldur Orri Bjarkason, Jón Skúli Ómarsson, Sana Salah Karim, Elísabet Xiang Sveinbjörnsdóttir

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Handhafi Ljóðstafsins fær farandgrip til varðveislu í eitt ár, verðlaunagrip til eignar og 300.000 króna peningaverðlaun. 200.000 kr. eru í verðlaun fyrir annað sætið og 100.000 fyrir það þriðja. Einnig voru sjö ljóð valin sem fengu viðurkenningu dómnefndar og voru þau lesin upp við athöfnina.

Ljóðstafur Jóns úr Vör hefur verið afhentur á fæðingardegi skáldsins, 21. janúar, frá árinu 2002. Í ár eru 100 ár liðin frá fæðingu Jóns, sem lést árið 2000. Jón starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.

Silkileið nr.17

þú breyttir mér óvart í vetur

og hélst ég væri planta (og sól og ský)

sem vökvaði sjálfa sig með snjó

og geymdir mig í brjóstvasa í krukku með mold

og úr laufunum láku silkileiðir í gegnum saumana

að tölu sem ég þræddi eitt sinn með hári

 

ég ferðast þaðan á hraða úlfalda

því annars verður sálin eftir segja arabar

 

í eyðimörk skyrtu þinnar

(sem minnir á handklæði)

er ég týnd í sveit milli sanda

of nálægt

til að geta aðskilið

jörð og skinn

 

svo ég skauta bara hér

þar til vorar

 

Ásta Fanney Sigurðardóttir