Hluta Kópavogsskóla lokað vegna myglu

Kópavogsskóli við Digranesveg.
Kópavogsskóli við Digranesveg.

Hluta Kópavogsskóla verður lokað vegna myglu frá og með morgundeginum, 18. mars. Nemendur í 6. og 7. bekk verða heima á morgun en aðrir nemendur mæta í skólann.

Í kjölfar lokunarinnar verður hluti Fannborgar 2, sem áður hýsti Bæjarskrifstofur Kópavogs, nýttur fyrir kennslu, líkt og gert var þegar rýma þurfti Kársnesskóla Skólagerði vorið 2017. Nemendur 6.-10. bekkjar, alls um 170 nemendur, verða í Fannborg, á 1. og 2. hæð.

Nánar

Farið var í víðtæka sýnatöku í miðálmu Kópavogsskóla eftir að mygla greindist í einni stofu í janúar síðastliðnum og lá niðurstaða sýnatökunnar fyrir síðdegis í gær.

Þrálát lekavandamál hafa verið á suðurhlið Kópavogsskóla og eru rakaskemmdir frá fyrri tíð komnar í ljós en tvö ár eru síðan suðurhliðin var einangruð að utan. Framkvæmdir hefjast eins fljótt og auðið er og er stefnt að því að þeim verði lokið áður en skóli hefst á ný í ágúst.

Viðgerðir munu felast í því að öll múrhúð og einangrun innanvert á suðurhlið verður fjarlægð, yfirborð steinsteypu hreinsað, einangrað og múrhúðað upp á nýtt. Jafnframt verða öll gólfefni í stofunum endurnýjuð, bæði á suðurhliðinni og þar sem vart hefur orðið við raka við skil útbyggingar á norðurhlið.

Fundað var með starfsfólki í dag og það upplýst um stöðu mála. Þá hafa foreldrar verið upplýstir.

Kópavogsskóli stendur við Digranesveg 15. Í honum eru 390 börn frá 1.til 10.bekk.