- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Salurinn efnir um þessar mundir til spennandi hugmyndasamkeppni á meðal tónskálda og hljóðlistamanna um ný tón- og hljóðverk sem innblásin eru af sögu og hljóðheimi Kópavogs undir yfirskriftinni Hljóðverk 21/22.
Þetta er annað árið í röð sem Salurinn efnir til tónverkasamkeppni á meðal tónskálda en fyrir réttu ári auglýsti Salurinn eftir nýjum verkum fyrir Strokkvartettinn Sigga undir yfirskriftinni Tónverk 20/21. Fjögur tónskáld voru valin úr hópi umsækjenda en strengjakvartettar eftir Ásbjörgu Jónsdóttur, Gunnar Karel Másson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Sigurð Árna Jónsson verða frumfluttir á tónleikum með Strokkvartettnum Sigga í Salnum árið 2021.
Gróska og nýsköpun
„Með þessu stuðlar Salurinn að mikilvægri grósku og nýsköpun“ segir Aino Freyja Järvelä, forstöðukona Salarins. „Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar hefur stutt myndarlega við okkur og við höfum átt frábært samstarf við bæði Tónverkamiðstöð og Tónskáldafélag Íslands til að umgjörðin sé sem faglegust. Keppnin í fyrra gekk mjög vel, mikil þátttaka og mjög spennandi tónskáld sem valin voru og ljóst var að þetta væri verkefni sem full ástæða væri til að halda áfram með“.
Í samstarfi við Héraðsskjalasafnið
Að þessu sinni var ákveðið að leita til Héraðsskjalasafns Kópavogs sem samstarfsaðila í keppninni en safnið hefur að geyma merkileg gögn og heimildir um sögu bæjarfélagsins auk þess sem vefurinn Ísmús hefur að geyma ótal viðtöl og frásagnir frá fyrstu árum Kópavogsbæjar sem gætu nýst tónskáldum í hugmyndavinnu. „Uppleggið er opið og tónskáldum í sjálfsvald sett að teygja það í þá átt sem þeim finnst spennandi“, segir Aino Freyja. „Saga og hljóðheimur Kópavogs er yfirskriftin og svo er hægt að tengja það stef inn í fortíð eða samtíð á alls konar hátt. Yfirskriftin er Hljóðverk 21/22 þar sem við viljum líka ná til þess stóra hóps tónskálda og hljóðlistamanna sem semja ekki endilega fyrir akústísk hljóðfæri en kjósi höfundar að semja fyrir flytjendur á sviði er það að sjálfsögðu leyfilegt. Fyrst og fremst erum við að leita eftir áhugaverðu listafólki með frjóar og spennandi hugmyndir.“
Keppnin öllum opin og óháð aldri
Umsóknarfrestur er til 15. desember en umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá auk lýsingar á hugmynd að verki. Keppnin er öllum opin og óháð aldri en gert er ráð fyrir umtalsverðri reynslu á sviði tón- eða hljóðlistar sem nýtast muni höfundum við samningu verksins. Dómnefnd skipa tónskáldin Atli Ingólfsson og Karólína Eiríksdóttir og fiðluleikarinn Una Sveinbjarnardóttir sem munu fara yfir innsendar tillögur og velja úr tónskáld sem munu í framhaldi fullvinna hugmyndir sínar í verk sem flutt verða árið 2022. Sérfræðingar hjá Héraðsskjalasafni verða höfundum innan handar með ráðgjöf ef þess gerist þörf við samningu verkanna.
Nánari upplýsingar má nálgast inni á vef Salarins á www.salurinn.is
Umfjöllunin birtist í Kópavogspóstinum 2.desember 2020.