- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Hópur grænlenskra barna dvelur nú í Kópavogi við sundiðkun, nám og leik. Meðal þess sem börnin gerðu í vikunni var að sækja Bessastaði heim þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók vel á móti þeim.
KALAK, vinafélag Grænlands og Íslands, hefur frá 2006 í samvinnu við Kópavogsbæ, Hrókinn og fjölmörg fyrirtæki boðið ellefu ára börnum af austurströnd Grænlands til tveggja vikna dvalar á Íslandi. Aðaltilgangur fararinnar er að kenna börnunum sund og kynna þau fyrir jafnöldrum sínum og íslensku samfélagi.
Þetta er í tólfta sinn sem börnin læra sund í Kópavogi. Skóladagurinn hefst klukkan 8 með eins og hálfs tíma sundtíma í Sundlaug Kópavogs hjá Guðrúnu Eiríksdóttur og Haraldi Erlendssyni. Þá tekur skólastarf með jafnöldrum sínum í Kópavogs- og Snælandsskóla. Eftir hádegi er svo sundkennsla á ný. Að sögn sundkennara er það unun að fá að kenna börnunum að synda, því þau eru svo spennt og jákvæð að takast á við nýja hluti.
Meðal skólaverkefna sem börnin hafa tekið þátt í með íslenskum jafnöldrum sínum má nefna list- og verkgreinasmiðjur, útikennslu og tónmennt. Þrátt fyrir tungumálaörðugleika hefur allt samstarf gengið ljómandi vel.
Margir aðilar leggja sitt af mörkum við að gera dvöl barnanna sem ánægjulegasta. Þau fara í bíó, heimsækja Húsdýragarðinn og skautahöllina, Alþingi og Bessastaði, fara á hestbak og ferð um gullna hringinn svo fátt eitt sé nefnt. Þá hafa fyrirtæki í Kópavogi styrkt börnin, en BYKO gaf sundpoka og Rúmfatalagerinn handklæði sem börnin fengu afhent við komuna.