- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi skólastarf í grunnskólum Kópavogs, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í gær, fimmtudaginn 17. maí.
Viðukenningu hlutu fjögur verkefni:
*Lestrarganga í Kópavogsdal, höfundar Sigrún Hildur Kristjánsdóttir og Anna Pála Gísladóttir í Álfhólsskóla
*Matarsóun og umgengni, höfundar Linda Brá Hafsteinsdóttir, Ólafía Þóra Óskarsdóttir, Lilja Jóhanna Árnadóttir, Dagmar Kjartansdóttir og Jón Árni Rúnarsson í Kársnesskóla sáu um.
*Menntabúðir, höfundur Bergþóra Þórhallsdóttir í Kópavogsskóla.
*Hreyfismiðja, höfundur María Málfríður Guðnadóttir í Lindaskóla.
Alls bárust átta tilnefningar til menntaráðs og voru veittar fjórar viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skólastarfi.
Nánar um verkefnin:
Sigrún Hildur Kristjánsdóttir og Anna Pála Pálsdóttir í Álfhólsskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Lestrarganga í Kópavogsdal. Um er að ræða verkefni sem allir nemendur unglingastigs Álfhólsskóla tóku þátt í. Nemendum var skipt í 32 hópa, jafnmarga og járnbækurnar sem staðsettar eru á ljósastaurum frá Bókasafni Kópavogs og að Aldamótalundi leikskólanna í Kópavogsdal. Í hverjum hópi var einn liðsstjóri sem hélt utan um verkefnið og sá um að skila því inn ásamt jafningjamati og sjálfsmati meðlima. Hver hópur fékk eina aðalsögu sem hann vann með en auk þess áttu hóparnir að leysa ýmis verkefni tengd öllum sögunum. Nemendur voru hvattir til að vera skapandi í úrlausnum sínum og máttu nota öll þau tæki og hjálpargögn sem þeim hugnaðist.
Linda Brá Hafsteinsdóttir, Ólafía Þóra Óskarsdóttir, Jóhanna Lilja Árnadóttir, Dagmar Kjartansdóttir og Jón Árni Rúnarsson í Kársnesskóla fengu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Matarsóun og umgengni. Um er að ræða tilraunaverkefni á miðstigi sem fólst í að minnka matarsóun og bæta umgengni nemenda í matsal. Niðurstaðan varð sú að umgengni batnaði til muna, matarsóun minnkaði um 25% og merkjanlegt var hversu meðvitaðir nemendur voru um hverju þau voru að henda og hversu mikið þau fengu sér á diskinn sinn. Unnið verður áfram að þróa þetta verkefni.
Bergþóra Þórhallsdóttir, deildarstjóri í Kópavogsskóla hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Menntabúðir. Menntabúðir eru haldnar einu sinni til tvisvar í mánuði og eru vettvangur þar sem kennarar læra hver af öðrum. Í fyrstu voru þær eingöngu fyrir kennara í Kópavogsskóla en síðan var kennurum annarra skóla boðið að taka þátt. Meginþema menntabúðanna miðar að þróun og breytingu kennsluhátta, m.a. með rafrænni tækni almennt en einskorðast ekki eingöngu við spjaldtölvur þó þær hafi mikið vægi í dagskránni. Einnig er alltaf gert ráð fyrir tíma til að ræða saman og efla lærdómssamfélag kennara.
María Málfríður Guðnadóttir íþróttakennari í Lindaskóla fékk viðurkenningu fyrir Hreyfismiðju þar sem unnið er með markvisst með nemendur í 1. bekk einu sinni í viku. Unnið er með jafnvægi, gróf- og fínhreyfingar, hreyfivitund, tónlist og takt. Nemendur fá einnig þjálfun í æfingum sem reyna á samhæfingu augna og handa og að krossa yfir miðlínu ásamt fleiru. Einnig er nemendum kennd slökun og þeir læra að nudda með nuddboltum.
Önnur verkefni sem tilnefnd voru til Kópsins voru eftirfarandi: Teymiskennsla í 5. bekk í Kársnesskóla, Heilsudagar í Álfhólsskóla, Syngjandi skóli í Lindaskóla og Vinnum saman á miðstigi í Álfhólsskóla.