Fossvogslaug í miðjum dalnum

Lagt er til að Fossvogslaug verði staðsett um miðjan Fossvogsdal.
Lagt er til að Fossvogslaug verði staðsett um miðjan Fossvogsdal.

Fossvogslaug verður að veruleika og verður staðsett fyrir miðjum Fossvogsdal. Forsögn varðandi samkeppni um verkefnið er tilbúin, en það er lýsing sem greinir frá staðsetningu laugarinnar, fyrirhugaðri notkun og kröfum um efnisval, gæði, útlit og annað er máli skiptir fyrir hönnunarsamkeppni um útlit laugarinnar. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs undirrituðu í mars árið 2021 viljayfirlýsingu þess efnis að halda skyldi sameiginlega hönnunarsamkeppni um Fossvogslaug í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Kópavogsbær og Reykjavíkurborg eru sammála um að ný laug verði við miðbik Fossvogsdals, í göngufæri frá grunnskólum dalsins, Snælandsskóla og Fossvogsskóla. Ný laug á að henta fyrir almenningssund, sundkennslu, sundæfingar, námskeið, sundleikfimi, o.fl.

Einstök staðsetning í fallegu umhverfi

Fossvogslaug mun nýta einstaka staðsetningu á fjölsóttu útivistarsvæði í fallegu umhverfi en verða um margt einstök. Til að styðja við græn markmið verður ekki gert ráð fyrir almennum bílastæðum við laugina heldur eingöngu stæðum fyrir hreyfihamlaða, aðföng og neyðarbíla. Sundlaugin á ekki að auka bílaumferð um íbúðahverfin sitt hvoru megin við dalinn.

Sundlaugar skipa stóran sess í lífsgæðum Íslendinga og í þjónustu sundlauga birtist mjög vel sá þáttur í menningu borgarbúa sem við tengjum við heilbrigða lífshætti og þau náttúrugæði sem fólgin eru í heitu vatni og nýtingu jarðvarma. Fólk stundar laugarnar í heilsueflandi tilgangi jafnt sem félagslegum og margir myndu kalla sundlaugarnar helstu félagsmiðstöðvar Íslendinga.

Sveitarfélögin munu nú hefjast handa við næstu skref við undirbúning samkeppni um hönnun laugarinnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.

Forsögn