- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Flanerí Kóp eru hljóðgöngur um Kópavog í formi hlaðvarps sem njóta má hvenær sem er. Fyrsta hljóðgangan fór í loftið á Vetrarhátíð í Kópavogi, 5. febrúar og verður aðgengileg um ókomna tíð. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, var fyrstur til að prófa hljóðgönguna þar sem frásagnir, viðtöl, umhverfishljóð, staðreyndir, tónlist og skáldskapur sveipa Kópavog nýjum blæ og fara með hlustendur í ferðalag á kunnuglegar en jafnframt framandi slóðir. Það eina sem þarf er klæðnaður eftir veðri og heyrnartól, efninu er hlaðið niður af vefsíðunni flaneri.is og lagt í ævintýraleiðangur. Efnið er ókeypis og öllum aðgengilegt.
Flanerí-hópinn skipa Aðalbjörg Árnadóttir, sviðslistakona, Snorri Rafn Hallsson, heimspekingur og dagskrárgerðarmaður, Elísabet Jónsdóttir, grafískur hönnuður og Rannveig Bjarnadóttir, vefstjóri og sjúkraþjálfari. Hópurinn fékk á dögunum styrk frá Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar til að framleiða hljóðgöngur um sögu og samtíma Kópavogs og er fyrsta gangan helguð útilistaverkum í nágrenni Menningarhúsanna.
Gangan hefst við Bókasafn Kópavogs þar sem Sólarslóð, stórt útilistaverk Teresu Himmer á Hálsatorgi blasir við. Frá Sólarslóð liggur leið í átt Kópavogskirkju þar sem gluggar Gerðar Helgadóttur og nærliggjandi útilistaverk mynda meginþráðinn í frásögninni. Í þessu fyrsta hljóðvappi Flanerís koma meðal annars fram Sigurður Arnarson, sóknarprestur, Jón Proppé, heimspekingur og Teresa Himmer, myndlistarkona. Hið þekkta öðlast nýjan blæ, hlustendur fara í ferðalag á kunnuglegar en jafnframt framandi slóðir í persónulegum og ljóðrænum hljóðheimi.
Framundan eru fleiri göngur frá Flanerí-hópnum sem fékk styrk til að framleiða fjórar hljóðgöngur um Kópavog. Sjá nánar á www.flaneri.is.
Flanerí KÓP er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.