Fjölsótt Safnanótt

Gunnar Helgason sýndi tilþrif í sögustund á Safnanótt.
Gunnar Helgason sýndi tilþrif í sögustund á Safnanótt.

Safnanótt í Kópavogi var afar vel sótt og var fjöldi fólks í menningarhúsum Kópavogsbæjar frá því að hún var sett og til loka.

Að þessu sinni átti Styrmir Örn Guðmundsson ljóslistaverk á Kópvogskirkju og var því varpað á kirkjuna föstudags- og laugardagskvöld.

Í Bókasafni Kópavogs rak hver viðburður annan, og voru ungir sem aldnir mættir til taka þátt í karókí og listasmiðjum eða að hlusta á þjóðlög og upplestur. Gunnar Helgason og Þorvaldur Davíð Kristjánsson voru með sögustund og Evu Rún Snorradóttir og Halla Þórlaug Óskarsdóttir lásu upp úr eigin verkum. Þá las Arnar Jónsson leikari ljóð í Hljóðbókasafninu fyrir fullum sal.

Fuglafyrirlestur Sölva Rúnars Vignissonar laðaði að gesti á öllum aldri og sama má segja um tónleika í Salnum. Þar stigu á sviðið í anddyri hljóðfæraleikarar úr Skólahljómsveit Kópavogs en í salnum sjálfum tróð bæjarlistamaður Kópavogs, Kristófer Rodriguez Svönuson upp með hljómsveit sinni Watachico.

Loks var listamannaleiðsögn og gjörningakvöld í Gerðarsafni. Fjölmennt var til loka þar sem áhorfendur fylgdust heillaðir með með fjórum gjörningum en gjörningakvöldið var í samstarfi við Hamraborg Festival og raunar í fyrsta í röð gjörningakvölda ársins 2025.

Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð á höfuðborgarsvæðinu og fór fram föstudaginn 7.febrúar.

Takk fyrir komuna :)

Skoða fleiri myndir frá Safnanótt