Bolir skreyttir bakteríum

Verkefni Bacterial Girls snýst um að taka bakteríusýni af mörgum af helstu kennileitum Kópavogs og …
Verkefni Bacterial Girls snýst um að taka bakteríusýni af mörgum af helstu kennileitum Kópavogs og rækta þau.

Skapandi Sumarstörf stóðu fyrir vinnusmiðju í bolaprentun sem vakti mikla lukku. Viðburðurinn fór fram föstudaginn 12. júlí á Náttúrustofu Bókasafns Kópavogs en verður endurtekinn 19. júlí og mun standa yfir frá 13.00 - 16.00. Í smiðjunni er gestum boðið að koma með eigin boli og gefa þeim nýtt líf.

 

 

Listhópurinn Bacterial Girls er einn af 11 verkefnum sem tekin voru inn í Skapandi Sumarstörf í Kópavogi í sumar. Listhópurinn samanstendur af þeim Vöku Agnarsdóttur, Sunnu Tryggvadóttur og Valdísi Mýrdal.

 

 

Verkefni þeirra snýst um að taka bakteríusýni af mörgum af helstu kennileitum Kópavogs og rækta þau. Mynstrin sem bakteríurnar mynda eru svo skönnuð inn og mynda þá skapalón fyrir bolaprentunina. Hópurinn notar sólarprent aðferð til að færa myndirnar af sýnunum yfir á bolina. Kennileiti sem þær hafa tekið sýni af eru meðal annars Kópavogstjörn, Víghóll og Salalaug.

 

 

Opið hús verður á Náttúrustofu Bókasafnins á milli 13 og 16 föstudag 19. júlí en athugið að prentunin tekur um klukkustund og því öruggast að mæta ekki seinna en 15.00 ef óskað er eftir bolaprentun. Úrklippu- og teikniborð verður á staðnum þar sem hægt er að föndra og dunda sér á meðan bolurinn verður til.

 

 

Hægt er að sjá viðburðadagskrá Skapandi Sumarstarfa hér.