Endurbætur húsa og fallegir garðar verðlaunaðir

Á myndinni má sjá handhafa umhverfisviðurkenninga 2024, umhverfis- og samgöngunefnd, Elísabetu Svei…
Á myndinni má sjá handhafa umhverfisviðurkenninga 2024, umhverfis- og samgöngunefnd, Elísabetu Sveinsdóttur forseta bæjarstjórnar Kópavogs og Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs.

Haukalind 20 og Kópavogsbarð 20 hlutu viðurkenningu fyrir fyrirmyndar umhirðu húss og lóðar og Vogatunga 6 fyrir endurgerð húsnæðis þegar umhverfisviðurkenning Kópavogsbæjar fyrir árið 2024 var afhent.

Kópavogsbær hefur veitt umhverfisviðurkenningu frá árinu 1964 en frá 1995 hefur umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogsbæjar séð um veitingu viðurkenninganna.

Viðurkenningarnar voru veittar í Gerðarsafni að viðstöddum Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, Elísabetu Sveinsdóttur forseta bæjarstjórnar, Bergi Þorra Benjamínssyni formanni umhverfis- og samgöngunefndar og meðlimum nefndarinnar.

Eigendur Haukalindar 20 eru þau Ástrún Viðarsdóttir og Óttar Hreinsson en arkitekt hússins er Þórarinn Þórarinsson. Þau eignuðust húsið árið 2013 og hafa endurgert garðinn síðan þá og hefur hönnun og framkvæmd verksins verið í þeirra höndum með dyggri aðstoð. Snyrtileg beð með fjölbreyttum gróðri, trjám og runnum einkenna garðinn, áherslan er á stílhreinan og viðráðanlegan garð sem hentar fjölskyldunni.

Eigendur Kópavogsbarðs 20 eru þau Katrín S. Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Árni Ásgeirsson en arkitektar Baldur Ó. Svavarsson og Jón Þór Þorvaldsson, Úti og Inni arkitektar. Katrín og Vilhjálmur fluttu inn í nýbyggt hús árið 2008 og hófst lóðafrágangur þremur árum síðar. Bróðir Katrínar, Karl Guðjónsson skrúðgarðyrkjumeistari og landslagsarkitekt, var þeim hjónum innan handar við að skipuleggja lóðina. Í garðinum er fjölbreyttur gróður sem hefur tínst til smám saman í áranna rás.

Eigendur Vogatungu 6 eru Guðmundur Bergkvist Jónsson og Ólína Björg Einarsdóttir. Þau keyptu húsið árið 2012 en það er byggt á árunum 1960-1962 af Byggingarfélagi verkamanna. Þau hafa endurnýjað húsið algjörlega, en það var mjög illa farið. Í dag er búið að múra og mála allt húsið, skipta um þak og glugga, frárennsli og dren. Allt innan í húsinu hefur verið endurnýjað, ásamt rafmagni og lögnum. Mikið af verkinu var unnið af þeim Guðmundi og Ólínu sjálfum með hjálp vina og vandamanna en góðir iðnaðarmenn hafa komið inn í stöku verkefni. Þá hafa nágrannar lýst ánægju sinni yfir endurgerðinni enda hefur húsið bætt ásýnd götunnar í heild.