- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Haldið verður upp á Vetrarhátíð í Kópavogi með Safnanótt 7. febrúar og Sundlauganótt 9. febrúar.
Föstudaginn 7. febrúar verður hin árlega Safnanótt haldin í Kópavogi og verða 28 mismunandi viðburðir í boði í Menningarhúsunum, Kópavogskirkju og Midpunkt. Dagskráin hefst kl. 17 og stendur yfir til kl. 23 um kvöldð.
Safnanótt í Kópavogi er hugsuð fyrir alla fjölskylduna en Menningarhúsin munu bjóða upp á fjölbreyttar smiðjur, tónleika, leiðsagnir, fyrirlestra, ratleiki og margt fleira. Í ár er safnanótt í Kópavogi með kvikmyndaþema og endurspeglast það í þeim fjölmörgu viðburðum sem Menningarhúsin bjóða upp á.
Í húsi Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs verður stanslaus dagskrá frá kl. 17-23. Á meðal dagskrárliða er skemmtilegt fjölskylduquiz með Sigyn Blöndal, kvikmyndaquiz með Pub Quiz Plebbunum, leiðsögn um nýja sýningu Náttúrufræðistofu og fjöldi skemmtilegra smiðja fyrir alla fjölskylduna. Svo er aldrei að vita nema gestir rekist á sína uppáhalds kvikmyndapersónu á vappi um húsið, en gestir eru hvattir til að taka þátt í kvikmyndaþemanu og mæta í búningum.
Í Salnum mun stuðhljómsveitin Mandólín spila skemmtilega tónlist í huggulegri kaffihúsastemningu. Á Héraðsskjalasafni verður boðið uppá erindi um álfa, drauga og fleira fólk og sýningu á viðtölum við þrjá heldri Kópavogsbúa. Einnig verður margt í boði á Gerðarsafni, þ.á.m. hreyfimyndasmiðja, tónleikar, leiðsagnir um sýningar og gæðastundir í Stúdíó Gerðar.
Hápunktur Safnanætur er vörpunin á Kópavogskirkju en í ár er það listakonan ÚaVon sem skapar verkið sem mun prýða kirkjuna. Verkið Gárur er óður til sjávar og vatns sem á vel við núna þegar súrnun sjávar og vatnsgæði eru í brennidepli. Verkið vísar um leið í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem Kópavogsbær hefur innleitt.
Sundlauganótt verður svo á sunnudeginum 9. febrúar í Sundlaug Kópavogs. Dagskráin hefst klukkan 18 með Aqua Zumba og er ókeypis í laugina frá þeim tíma. Aqua Jóga hefst svo klukkan 19 og klukkan 20 hefjast tónleikar með Hreimi Erni Heimissyni og tekur svo Svavar Knútur við klukkan 21 með tónleika. Sundlauginni er svo lokað klukkan 22.
Ítarlegri dagskrá Safnanætur í Kópavogi er hægt að finna á Facebook síðu Kópavogsbæjar.