Vatnsendamáli endanlega lokið

Frá Vatnsenda í Kópavogi.
Frá Vatnsenda í Kópavogi.

Beiðni um að áfrýja dómi Landsréttar í Vatnsendamáli var í dag synjað af Hæstarétti. Það þýðir að Vatnsendamáli er endanlega lokið og eru engin mál nú fyrir dómsstólum sem tengjast eignarnámi Kópavogsbæjar í Vatnsenda.

„Þetta er risastór áfangi og gleðitíðindi fyrir Kópavogsbæ. Allri óvissu er nú lokið með þessari niðurstöðu sem er mjög jákvætt. Kópavogsbær þarf ekki lengur að gera ráð fyrir fjárkröfum vegna Vatnsendamálsins í ársreikningi, en gert hefur verið ráð fyrir þeim frá upphafi í bókum bæjarins,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Málið á aðdraganda til eignarnámssáttar Kópavogsbæjar árið 2007 í landi úr jörðinni Vatnsenda í Kópavogi. Árið 2018 var Kópavogsbæ stefnt af hálfu Þorsteins heitins Hjaltested um viðbótar eignarnámsbætur og skaðabætur vegna tapaðra leigutekna. Landsréttur sýknaði Kópavogsbær af fjárkröfunum í febrúar síðastliðnum, en þær námu 5,6 milljörðum króna. Beiðni Magnúsar Péturs Hjaltested, sonar Þorsteins, um áfrýjun á þeim dómi hefur nú verið hafnað.