Sjálfbærniskýrsla fyrir árið 2023 gefin út

Meðal þess sem er til umfjöllunar í Sjálfbærniskýrslunni fyrir árið 2023 eru réttindaleikskólar í K…
Meðal þess sem er til umfjöllunar í Sjálfbærniskýrslunni fyrir árið 2023 eru réttindaleikskólar í Kópavogi.

Sjálfbærniskýrsla Kópavogs fyrir árið 2023 hefur verið gefin út á vef Kópavogsbæjar. Skýrslan skiptist efnislega í fjóra hluta sem fjalla um stjórnarhætti, umhverfi, efnahag og samfélagið. Skýrslan endurspeglar vel fjölbreytta starfsemi sveitarfélagsins en lögð er áhersla á þau verkefni sem falla að markmiðum Kópavogsbæjar og innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Í skýrslunni er meðal annars fjallað um viðamikil verkefni sem voru viðfangsefni árið 2023. Má þar nefna skipulagsvinnu á nýju hverfi, Vatnsendahvarfi, en þar er áformað að rísi 500 íbúa byggð. Þá var starfsumhverfi leikskólanna tekið til gagngerrar endurskoðunar með farsæld barna að leiðarljósi. Meðal þess sem var innleitt var gjaldfrjáls leikskóli í sex tíma. 40% af foreldrum og forráðafólki barna nýttu sér sveigjanleika í skráningu dvalartíma og styttu dvalartíma barna með þeim jákvæðu afleiðingum að mönnun gekk miklu betur en undanfarin ár og leikskólar þurftu ekki að grípa til lokana vegna manneklu. Áfram var stutt við heilsueflingu eldri borgara í gegnum verkefnið Virkni og vellíðan sem hefur eflst ár frá ári og fer nú fram bæði í íþróttahúsum og félagsmiðstöðvum aldraðra.

Loftlagsstefna fyrir höfuðborgarsvæðið var undirrituð á árinu 2023 og stefna sveitarfélögin að því að höfuðborgarsvæðið verði kolefnishlutlaust árið 2035. Liður í innleiðingu hennar var að koma á nýju flokkunarkerfi sorps á höfuðborgarsvæðinu og fór sú breyting fram vorið 2023 hjá Kópavogsbæ. Með því hófst sérsöfnun á lífrænum úrgangi frá heimilum sem er meðhöndlaður í gas- og jarðgerðarstöðinni GAJU og kolefnislosun frá úrgangi ætti því að minnka á komandi árum.

Sjálfbærniskýrslan fyrir árið 2023 er sú þriðja sem Kópavogsbær gefur út. Skýrslan er gefin út samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative, GRI, sem eru alþjóðlega viðurkenndir staðlar um miðlun upplýsinga um samfélagslega ábyrgð sem eru notaðir í yfir 100 löndum.