Ákvörðun Hæstaréttar í máli nr. 2025-33. Vatnsendamál

Hæstiréttur hefur synjað umræddri áfrýjunarleyfisbeiðni. Dómsmálinu er því endanlega lokið. Í dag e…
Hæstiréttur hefur synjað umræddri áfrýjunarleyfisbeiðni. Dómsmálinu er því endanlega lokið. Í dag eru engin önnur mál fyrir dómstólum er tengjast eignarnámi Kópavogsbæjar í Vatnsenda.

Hinn 28. maí 2018 var Kópavogsbæ birt stefna af hálfu Þorsteins heitins Hjaltested, þáverandi ábúanda jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi. Í málinu krafðist stefnandi þess að Kópavogsbær greiddi honum viðbótar eignarnámsbætur vegna eignarnáms bæjarins á landi úr Vatnsenda árið 2007. Aðalkrafa stefnanda var um greiðslu úr hendi Kópavogsbæjar að fjárhæð 5.631.000.000 kr. Jafnframt krafðist stefnandi viðurkenningar á skyldu Kópavogsbæjar til að greiða stefnanda skaðabætur vegna tapaðra árlegra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli á grundvelli eignarnámssáttar frá 30. janúar 2007, svo og viðurkenningar á tilteknum öðrum skyldum Kópavogsbæjar. Undir rekstri málsins tók sonur Þorsteins, Magnús Pétur Hjaltested, við aðild málsins til sóknar.

Héraðsdómur Reykjanes kvað upp dóm í málinu 7. júlí 2023. Var niðurstaða héraðsdóms að Kópavogsbæ bæri að greiða Magnúsi Pétri Hjaltested, 1.400.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. janúar 2013 til 7. júlí 2023 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá var viðurkennd skylda Kópavogsbæjar til að greiða skaðabætur vegna tapaðra árlegra leigutekna af 300 lóðum undir sérbýli í landi Vatnsenda. Þá var staðfest skylda Kópavvogs að hrinda í framkvæmd tilteknu skipulagi innan Vatnsenda.

Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar sem kvað upp dóm í málinu 6. febrúar 2025. Með dóminum var Kópavogsbær sýknaður af öllum fjárkröfum Magnúsar Péturs Hjaltested. Þá var bærinn sýknaður af kröfu um viðurkenningu á skyldu til greiðslu skaðabóta vegna tapaðra árlegra leigutekna á svæðinu. Aðrar skyldur tengdar skipulagi á svæðinu voru umdeildar milli aðila.

Í kjölfar dóms Landsréttar óskaði Magnús Pétur Hjaltested eftir því að málið fengi áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur synjað umræddri áfrýjunarleyfisbeiðni. Dómsmálinu er því endanlega lokið. Í dag eru engin önnur mál fyrir dómstólum er tengjast eignarnámi Kópavogsbæjar í Vatnsenda.