- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Þjónusta við ungmenni í Kópavogi á aldrinum 16 – 25 ára verður efld verulega í Molanum – Miðstöð unga fólksins sem mun hafa það hlutverk að vinna að menntun, velferð og vellíðan ungs fólks. Ungmennahúsið Molinn fær þannig nýtt og aukið hlutverk í þjónustu við ungmenni.
Markmiðið með breytingunum er mæta betur þörfum ólíkra hópa ungmenna, auka fjölbreytileika þjónustunnar og styrkja starfsemina verulega.
Meðal annars verður staða ráðgjafa ungmenna í Molanum styrkt. Lögð verður áhersla á að auðvelda aðgengi ungmenna að þjónustu hjá viðurkenndum aðilum sem láta sér hagsmuni ungs fólks varða og komið á samstarfi við félagasamtök, menntastofnanir og aðra aðila sem vinna í þágu ungs fólks.
Þessi breyting er í samræmi við áherslur í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Meiri ábyrgð er á að sveitarfélögin fylgi eftir viðkvæmum hópi barna með stuðningi og ráðgjöf þegar grunnskóla lýkur eða allt til 18 ára aldurs en vísbendingar eru um aukinn fjölda ungmenna sem eru hvorki í skipulögðu námi né vinnu.
Molinn – Miðstöð unga fólksins, mun auk þess áfram sinna því hlutverki að vera vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að styrkja félagsleg tengsl og sækja fræðslu og stuðning. Stuðlað verður enn frekar að því að auka tækifæri ungs fólks til skapandi vinnu, nýsköpunar, atvinnu – og starfsþjálfunar.
Breytingar á starfsemi Molans voru samþykktar í Bæjarstjórn Kópavogs 11.apríl.