- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Menningarhúsin í Kópavogi bjóða börnum í leik- og grunnskólum upp á fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá á Barnamenningarhátíð sem fer fram vikuna 8. – 13. apríl. Auk fjölda smiðja og tónleika verða verk eftir nemendur til sýnis á Bókasafni Kópavogs, Náttúrúfræðistofu og Gerðarsafni en nemendahóparnir hafa unnið að verkunum sem sýnd verða í allan vetur.
Í Salnum fara alls 8 viðburðir fram; tónleikar með Dúó Stemmu fyrir leikskólabörn, fyrir nemendur á miðstigi grunnskólans sýningin The Fluteman Show sem er samstarfsverkefni Menningarhúsanna og Listar fyrir alla og hljómsveitin Mandólín fer á heimshornaflakk með unglingum.
Í Gerðarsafni verður hreyfimyndasmiðja með Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur og Atla Arnarssyni, höfundum Marglitu marglyttunnar, en þau kenna nemendum í 3. og 4. bekk að gera stuttar hreyfimyndir með spjaldtölvum en alls fara fram 10 smiðjur. Á 1. hæð stendur sýningin Fögnum fjölbreytileikanum yfir en unglingar í Vatnsendaskóla unnu í vetur verk undir handleiðslu myndlistarkonunnar Melanie Bonaldo. Verk nemenda fjalla um þeirra upplifun af fordómum.
Á Bókasafni Kópavogs er 5. bekkingum boðið að kynnast hugleiðslu með jógahjartanu og allir geta tekið þátt í verkefninu HEIMA. Afrakstur vinnu með nemendum sem eru öll af erlendu bergi brotin myndar sýninguna HEIMA sem hægt er að taka virkan þátt í á meðan á hátíðinni stendur.
Í Náttúrufræðistofu verður nemendum í 1. og 2. bekk boðið að skapa sinn uppáhalds fugl eða-fjall en sýning á verkefnum leikskólanema snýst einmitt um fugla og fjöll sem nemendur unnu í samstarfi við verkefnastjóra Menningarhúsanna.
Laugardaginn 13. apríl lýkur Barnamenningarhátíð í Kópavogi með dagskrá í Menningarhúsunum frá klukkan 11:30 – 16:00 sem ætluð er allri fjölskyldunni. Smiðjur líkt og þær sem nemendur tóku þátt í á Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu og Gerðarsafni verða á dagskrá, tónleikar með Dúó Stemmu í Salnum og bæjarlistamaður Kópavogs, Stefán Hilmarsson, kemur fram í Gerðarsafni ásamt nemendum úr Tónlistarskóla-og Skólahljómsveit Kópavogs.